Domino´s deild karla rúllar af stað á nýjan leik eftir jólahlé í kvöld. Þrír leikir eru á dagskránni sem marka upphaf tólftu umferðar deildarinnar. Allir þrír leikir kvöldsins hefjast kl. 19:15 sem og viðureign FSu og Breiðabliks í Iðu á Selfossi.
 
 
Leikir kvöldsins í Domino´s deild karla, 19:15:
 
Grindavík – Haukar
Tindastóll – Stjarnan
Njarðvík – KR
 
Topplið KR heldur í Ljónagryfjuna og mætir nokkuð breyttum Njarðvíkingum sem hafa fengið inn Stefan Bonneau í stað Dustin Salisbery. KR-ingar eins og öllum er ljóst eru taplausir á toppnum en Njarðvíkingar í 6. sæti með fimm sigra og sex tapleiki.
 
Grindavík og Haukar hafa lagt það í vana sinn síðustu misseri að bjóða upp á framlengingar, gæti orðið svoleiðis uppi á teningnum í Röstinni í kvöld. Grindvíkingar í 9. sæti hafa fengið bræðurna Jón Axel og Ingva aftur heim en Magnús Þór Gunnarsson hefur sagt skilið við klúbbinn. Haukar eru óbreyttir og verma 4. sætið með 14 stig fyrir leik kvöldsins.
 
Toppslagur í Síkinu en Stólarnir eru í 2. sæti deildarinnar með 18 stig og þar á eftir kemur Stjarnan í 3. sæti með 14 stig. Nýja árið hefst því með látum í Skagafirði.
 
Leikir kvöldsins í 1. deild karla, 19:15
 
FSu og Breiðablik mætast í Iðu en þetta verður fyrsti leikur Rúnars Inga Erlingssonar með Blikum eftir að hann gekk í raðir þeirra frá Njarðvík á dögunum. FSu er í 2. sæti deildarinnar með 16 stig fyrir leik kvöldsins en Blikar með 8 stig.