Ljósmyndarinnar Daníel Rúnarsson fylgist grannt með KR-ingunum sínum og fagnar endurkomu Darra Hilmarssonar eða „mótorsins“ eins og hann er kallaður. Karfan.is fékk Daníel til þess að rýna í toppslag Tindastóls og KR í Domino´s deild karla í kvöld.
 
 
„Þessi leikur er í raun smá forskot á úrslitakeppnis-sæluna, það er bara þannig. Sérstaklega þar sem liðin mætast aftur í byrjun febrúar í bikarnum.
 
Ef KR tekur leikinn þá má allt eins afhenda þeim deildarbikarinn strax, en það er eitthvað sem segir mér að norðanmenn séu ekki spenntir fyrir því. Það vita allir hvað KR liðið getur og með Darra aftur leikfæran þá sé ég ekki alveg hvernig Stólarnir ætla að stoppa KR. Það er endalaust af hæfileikum í KR liðinu en fallegir sportbílar fara ekki langt án mótorsins og að sama skapi er KR liðið ekki eins án Darra. Það sást best í ÍR og Njarðvíkur leikjunum.
 
Ég hef ekki séð alla leiki Tindastóls, en ég hef séð þeirra besta leik og þeirra versta leik. Það sem einkenndi muninn þarna á milli var að í versta leiknum, tapinu gegn Haukum, þá ákváðu heimamenn að horfa á Lewis og Dempsey spila körfubolta. En í þeirra besta leik, fyrri leiknum gegn KR og raunar líka í stórsigrinum á Snæfell, þá ákváðu þeir að taka þátt í leiknum með hinum snillingunum tveim. Ef Helgarnir, Ingvi, Pétur og Svavar leggja duglega í púkkið þá getur allt gerst. Ef þeir fá hinsvegar frítt á leikinn í boði K-Tak og horfa bara á, þá gæti þetta endað illa fyrir Króksara.“
 
Tindastóll-KR
Síkið kl. 19:15 í kvöld
Frítt inn í boði K-Tak