Karlalið KFÍ lagði Þór frá Akureyri í seinni leik liðanna í dag í algjörum háspennuleik á Jakanum. Þetta var mikill baráttuleikur og hnífjafn enda réðust úrslitin ekki fyrr en á síðustu sekúndunni þegar Birgir Björn setti niður skot eftir góða sendingu frá Nebosja. Úrslitin 75-74 KFÍ í vil og Birgir Björn maður dagsins!
 
Líkt og í gær hóf KFÍ leikinn betur og leiddi allan fyrri hálfleikinn, mest með 14 stigum. Í síðari hálfleik komust gestirnir svo betur inn í leikinn og jöfnuðu skömmu eftir að hálfleikurinn hófst og komstu svo fljótlega yfir. Eftir það var leikurinn í járnum og liðin skiptust á að leiða með fáum stigum ef ekki var jafnt. Lokasekúndurnar voru svo æsispennandi eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi frá KFÍ-TV. Vic Ian Damasin setti niður tveggja stiga körfu þegar 9 sekúndur voru eftir af leiknum og kom gestunum yfir 73-74. Nebosja var snöggur að koma boltanum í leik og Pance geystist fram völlinn og fann Nebosja aftur sem gerði atlögu að körfunni, dró í sig fjóra leikmenn Þórsara, og fann Birgi Björn lausan undir körfunni. Birgi brást svo ekki bogalistinn og lagði boltann í körfuna þegar aðeins ein sekúnda var eftir.
 
Sigurinn í dag var kærkominn eftir svekkjandi tap gærdagsins. Nebosja, Birgir Björn og Pance voru bestu menn KFÍ en einnig var ánægulegt að sjá ungan leikmann KFÍ, Helga Bergsveinsson, koma inn á með miklum látum, setja þrist, frákasta og berjast vel. Þar er á ferð efnilegur leikmaður sem heldur vonandi áfram á þessari braut. Hjá gestunum var Frisco Sandidge bestur, og trúlega besti maður vallarins líkt og í gær.
 
Nebosja var stigahæstur heimamanna í dag með 27 stig, 8 fráköst, 5 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Næstur kom Birgir Björn með 22 stig og 10 fráköst. Pance var líka drjúgur með 18 stig og 5 fráköst. Helgi Bergsveinsson átti góða innkomu með 6 stig, 6 fráköst, 2 stoðsendingar og 3 stolna bolta. Jóhann Jakob var með 2 stig og 6 fráköst.
 
 
Hjá gestunum var Frisco Sandidge lang bestur með 25 stig og hvorki meira né minna en 20 fráköst auk 4 stoðsendinga og 3 stolinna bolta. Næstur kom Arnór Jónsson með 16 stig, Vic Ian með 13 en aðrir með minna.
 
 
KFÍ: Nebojsa Knezevic 27/8 fráköst/5 stoðsendingar, Birgir Björn Pétursson 22/10 fráköst, Pance Ilievski 18/5 fráköst, Helgi Snær Bergsteinsson 6/6 fráköst, Jóhann Jakob Friðriksson 2/6 fráköst, Gunnlaugur Gunnlaugsson 0, Florijan Jovanov 0, Birgir Örn Birgisson 0, Sturla Stigsson 0, Óskar Ingi Stefánsson 0, Andri Már Einarsson 0, Björgvin Snævar Sigurðsson 0.
Þór Ak.: Frisco Sandidge 25/20 fráköst, Arnór Jónsson 16, Vic Ian Damasin 13, Einar Ómar Eyjólfsson 8/10 fráköst, Elías Kristjánsson 5, Bergur Sverrisson 4, Daníel Andri Halldórsson 3, Jón Ágúst Eyjólfsson 0.
Dómarar: Aðalsteinn Hrafnkelsson, Gunnar Thor Andresson
 
Mynd/www.kfi.is: Birgir Björn í leik með KFÍ gegn Þór Þorlákshöfn