Atli Fannar Bjarkason ritstjóri Nútímans og leikmaður Vonda liðsins í utandeildinni í körfubolta er stuðningsmaður Tindastóls út í gegn. Hann gerir ráð fyrir erfiðum leik hjá sínum köppum á Króknum en spáir þeim engu að síður sigri.
 
 
„Þetta verður gríðarlega erfiður leikur fyrir mína menn í Tindastóli. Þrátt fyrir hökt í einstaka leik þá hefur KR alltaf tekist að klára leikina sína og liðið er alveg óþolandi gott. Ég býst við að KR byrji af miklum krafti og að TIndastóll verði nokkurn veginn á afturlöppunum í fyrri hálfleik. Þriðji leikhluti verður svo Tindastóls og þá komast mínir menn mögulega yfir. Fjórði leikhluti verður svo æsispennandi en ómögulegt er að spá fyrir um úrslit.
 
Styrkur KR felst í þessari gríðarlegu breidd. Það er eiginlega sama hver kemur inn — alltaf skal hann vera ógeðslega góður. Svo er Michael Craion búinn að vera spila frábærlega rétt eins og hinn stórkostlegi Pavel Ermolinski, sem er að skila rugluðum tölum.
 
Styrkleiki Tindastóls felst í frábærri vörn. Þegar hún smellur á ekkert lið séns. Það sást best þegar liðin mættust í vesturbænum. Þá er liðið með frábæra sóknarmenn, Myron Dempsey verður betri í hverjum einasta leik, Pétur og Ingvi hafa verið frábærir og Helgi Freyr er búinn að finna einhvern fáránlegan takt bakvið þriggja stiga línuna. Svo má ekki gleyma Darrel Lewis sem hefur átt frábæra leiki í vetur og veður vonandi í stuði í kvöld. Og að endingu spái ég að sjálfsögðu mínum mönnum sigri.“
 
Tindastóll-KR
Síkið kl. 19:15 í kvöld
Frítt fyrir alla á leikinn í boði K-Tak