Hrafn Kristjánsson hefur gert breytingu á Stjörnumönnunum sínum en hann hefur ráðið til sín Jeremy Atkinson í stað Jarrid Frye. Jarrid Frye verður engu að síður í búning hjá Stjörnunni í kvöld líkt og Atkinson sem mun spila sinn fyrsta leik. Þá bendir allt til þess að Jón Sverrisson og Sæmundur Valdimarsson verði ekki meira með á tímabilinu. Leikurinn í kvöld verður sá síðasti hjá Frye þessa vertíðina.
 
 
„Jarrid er vissulega búinn að vera góður en kannski ekki á sama „leveli“ og þegar hann var hér síðast,“ sagði Hrafn en hann tók í morgun á móti Atkinson úti á Keflavíkurflugvelli svo kappinn fær lítinn tíma til að aðlagast áður en honum er grýtt í búning.
 
„Þessi ákvörðun er samt sem áður tekin mest megnis á leikfræðilegum forsendum. Þegar við fengum hann inn gerðum við ráð fyrir að Jón Sverris og Sæmi yrðu komnir á fullt eftir áramótin. Okkur vantar aðeins meira jafnvægi í liðið, við erum ansi þéttir í bakvarðastöðunum en við teljum okkur þurfa örlítið meiri ógnun nær körfunni á báðum endum vallarins. Við teljum okkur vera að gera breytingar sem geta mögulega skilað okkur hærra upp töfluna, svo er bara að sjá hvort úr rætist. Atkinson verður framherji/kraftframherji í okkar röðum en þetta er strákur sem lék að mestu á vængnum með Texas Legends í NBDL-deildinni síðustu 18 mánuði.“
 
Hvað varðar Jón Sverrisson og Sæmund þá er Sæmundur á leið í aðgerð vegna meiðsla og tímabilið á bak og burt hjá honum vegna þessa. Jón er enn að ná sér góðum af þeim meiðslum sem hann hlaut er hann var í röðum Fjölnis og ekki þykir ósennilegt að hann hverfi frá núna það sem af lifir leiktíðinni.