Eitthvað virðist jólafríið hafa farið illa í Haukamenn og lítið hefur gengið hjá liðinu á árinu. Þeir fengu tækifæri til að snúa til baka á brautina beinu gegn Fjölnismönnum í Dalhúsum í kvöld. Fjölnismenn hafa jafnframt ekki riðið feitum hesti fram til þessa og hafa tapað mörgum leikjum naumlega, nú síðast í höfuðstað Vesturlands gegn Skallagrími í bikarnum. Því mátti búast við hörkubaráttu í kvöld.
 
 
Heimamenn voru mjög frískir í upphafi og virtist vera mjög góður andi í liðinu. Mitchell er augljóslega mjög fær leikmaður og hann byrjaði vel ásamt Arnþóri. Fjölnismenn voru komnir í 20-13 þegar lítið var eftir af fjórðungnum en Haukar enduðu sterkt með góðum varnarkafla. Staðan 24-22 eftir fyrsta fjórðung.
 
Gestirnir héltu í við heimamenn til að byrja með í öðrum leikhluta. Alex bauð upp á tilþrif leiksins með Lebron James-varið skot í hraðaupphlaupi Fjölnismanna. Þegar á leið tóku hins vegar Fjölnismenn á góðan sprett – Mitchell og Arnþór héldu uppteknum hætti á meðan Alex var eini Haukamaðurinn sem var að spila á pari. Heimamenn komu sér í þægilega 47-33 forystu og engu líkara en að Haukarnir hafi skilið allt sjálfstraust eftir á árinu 2014. Þeir reyndu að bregðast við með svæðisvörn og það skilaði árangri, aðeins níu stiga munur í hálfleik 49-40.
 
Leikur gestanna skánaði nokkuð eftir hlé. Einkum var það svæðisvörnin sem skilaði sér í nokkrum stolnum boltum og ódýrum stigum. Leikurinn harðnaði nokkuð – leikmenn hentu sér á alla bolta og mikil læti og mikið fjör. Haukar komu sér yfir í fyrsta sinn 58-59 en heimamenn gáfu þó ekkert eftir og nýi leikmaður þeirra, D. Thomas sem kom frá Val, setti góðan þrist í lok fjórðungsins og tryggði heimamönnum 68-65 forystu fyrir fjórða leikhlutann.
 
Baráttan hélt áfram í fjórða leikhluta sem myndaði allnokkra stíflu í stigaskorun. Arnþór hélt áfram að gera mjög vel og losaði stífluna með flottum þristi. Það var eins og það losaði stífluna á hina körfuna líka og Kári og Kristinn svöruðu hinum megin. Heimamenn héldu þó nokkurra stiga forystu og má segja að svæðisvörn gestanna hafi ýmist skilað stolnum bolta eða auðveldri körfu fyrir Fjölnismenn. Þegar tæpar þrjár mínútur lifðu leiks fékk svo Alex ruðningsvillu og þar með sína fimmtu villu í leiknum. Þá var staðan 86-83 en Alex hafði skömmu áður fengið rándýra fjórðu villu er hann sló til Mitchell eftir baráttu um boltann. Það var sem vatn á myllu heimamanna og eftir víti frá Arnþóri og risastóran þrist frá Róberti var staðan orðin 90-83 og aðeins ein mínúta eftir. Þrátt fyrir hefðbundin brögð gestanna til að minnka muninn fór hann aldrei niður í einnar körfu mun og Fjölnismenn fögnuðu langþráðum sigri, 95-91, að lokum.
 
Jonathan Mitchell spilaði mjög vel í þessum leik og skilaði 32 stigum og 16 fráköstum. Mikill hvalreki fyrir Fjölnismenn. Ástæða er til að hrósa Arnþóri í hástert eftir þennan leik. Hann spilaði afskaplega vel allan leikinn, var með frábæra nýtingu, skoraði 24 stig, gaf 5 stoðsendingar og tók 4 fráköst. Róbert átti einnig mjög fína spretti og endaði með 15 stig og 5 stoðsendingar.
 
Alex Francis skilaði 26 stigum og 13 fráköstum fyrir Hauka í kvöld. Vítanýtingin var hins vegar ekki boðleg eða 6/16! Einnig fór hann illa að ráði sínu undir lok leiks eins og greint er frá að ofan. Haukur skilaði einnig 26 stigum í kvöld en margir aðrir geta gert mikið betur í Haukaliðinu. Það er eins og að sjálfstraustið sé horfið úr liðinu og slíkt er ekki falt í Fjarðarkaupum, því miður fyrir Hafnfirðingana.
 
Fjölnismenn eru vel að sigrinum komnir. Góður andi, mikil barátta og góð nýting í kvöld skilaði sigrinum í hús. Spennandi er að sjá hvort þeir nái að fylgja þessum sigri eftir í komandi leikjum.
 
Arnþór Freyr átti frábæran leik í kvöld og var tekinn tali að honum loknum:
 
Þetta er væntanlega ansi langþráður sigur eftir að hafa tapað mörgum leikjum með litlum mun undanfarið?
Já, eins og síðustu leikir hafa verið – við höfum verið að tapa leikjunum á síðust 5 mínútunum eða svo. Við töluðum um það alla vikuna eftir Skallagrímsleikinn að við ætluðum að taka þennan leik, það er það eina sem hefur farið um hausinn á okkur og það skilaði sér í dag.
Það er þá kannski bara smá hugarfarsbreyting sem skilar sigrinum í dag. Þið eruð kannski ekkert að spila neitt mikið betur en í síðustu leikjum?
Einmitt, ekkert betur en í síðustu leikjum en þó betur en í leikjunum fyrir áramót. Við erum komnir með nýjan útlending, Emil og Thomas og við erum bara að spila vel og ég hef fulla trú á okkur.
Hver sigur skiptir mjög miklu máli og þessi stig dýrmæt skref til að halda sér í deildinni.
Algerlega, en þetta eru þó bara tvö stig – það er nóg af leikjum eftir og við erum staðráðnir í að taka fleiri stig í framhaldinu, það er klárt!
 
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, var að vonum ósáttur í leikslok:
 
Það hefur gengið mjög illa hjá ykkur eftir áramót – sérðu einhverja ákveðna skýringu á því?
Varnarleikurinn okkar hefur ekki verið neitt spes en hefur kannski verið okkar aðall. Hann var góður fyrir áramót. Það er þó ekki bara það – við höfum verið óskynsamir og við höfum verið að gera stór mistök hvað eftir annað – í þessum leik brjótum við til dæmis af okkur út á miðjum velli eins og vitleysingar þegar það er enginn hætta. Við erum að tapa leik eftir leik vegna þess að við erum að klúðra málunum. Mér fannst menn alveg vera að leggja sig fram í dag, kvarta ekki undan því. En við erum bara ekki nógu skynsamir.
 
Það var kannski svolítið stór biti í þessum leik að Alex fær ásetningsvillu undir lokin og svo klaufalega ruðningsvillu og þar með sína fimmtu villu undir lokin? Þú hlýtur að vera ósáttur með þetta?
Jájá, vissulega. Hann er náttúrulega orðinn þreyttur, búinn að spila mikið – okkur vantaði stóru mennina í dag til að hvíla hann. Hann klikkar svolítið í seinni hálfleik og svo brennum við af 13 vítum á línunni, ef við hefðum sett þau hefði þetta verið okkar leikur. Þetta skiptir máli í jöfnum leikjum.
 
Já, þar er Alex sannarlega svolítill sökudólgur?
Jájá, hann hefur bætt sig á línunni og byrjaði vel í fyrri hálfleik en hann brennir svo af vegna þreytu – eftir að hann fékk smá hvíld þá setti hann þrjú víti niður í röð. Hann brenndi líka svolítið af undir körfunni í seinni hálfleik en ekki í fyrri hálfleik.
 
Það er kannski ljósi punkturinn að þrátt fyrir slæmt gengi er 3-4. sætið enn í augsýn fyrir ykkur?
Það fjarlægist þó með fleiri töpum. En í dag erum við bara að hugsa um að vera inni í úrslitakeppninni. Í jólafríinu vorum við með augun á 3-4. sætið en markmiðin þurfa bara að breytast eftir stöðunni. Það er vissulega rétt að það er enn stutt í 3-4. sætið og ef við förum aftur að vinna leiki, sem gerist vonandi, þá getum við kannski endurskoðað okkar markmið aftur.
 
 
Umfjöllun: Kári Viðarsson