Kvöldið í kvöld verður seint leikið eftir en þá var Jón Arnór Stefánsson kjörinn íþróttamaður ársins og varð þar með aðeins annar körfuknattleiksmaðurinn til þess að hljóta þessa heiðursnafnbót. Karlalandsliðið í körfuknattleik sem tryggði sér þátttökurétt í lokakeppni EuroBasket 2015 var valið lið ársins og Pétur Guðmundsson var tekinn inn í heiðurshöll ÍSÍ. Kvöldin gerast ekki mikið stærri en þessi og 2014 fer í bækurnar sem ár körfuboltans.
 
 
Ekki er úr vegi að staldra eldsnöggt við og óska allri hreyfingunni til hamingju því svona afrakstur gerist aðeins með samstilltu átaki allra þeirra sem lifa og hrærast innan íþróttarinnar, allir meðtaldir frá húsverði upp í íþróttamann ársins.
 
Eins og flestum er kunnugt var Pétur Guðmundsson fyrstur Evrópumanna til þess að leika í NBA deildinni og var hann auðmjúkur og innilegur þegar hann þakkaði öllum þeim sem studdu við bakið á sér á sínum ferli. Hann var tekinn inn í heiðurshöll ÍSÍ í kvöld ásamt knattspyrnumanninum Ásgeiri Sigurvinssyni. Pétur og Ásgeir bætast nú í fríðan hóp sem hefur einnig á að skipa þeim Vilhjálmi Einarssyni, Bjarna Friðrikssyni, Völu Flosadóttur, Sigurjóni Péturssyni, Jóhannesi Jósefssyni, Alberti Guðmundssyni og Kristínu Rós Hákonardóttur.
 
Lið ársins er karlalandslið Íslands í körfuknattleik. Karlalandslið Íslands í knattspyrnu og karlalið Stjörnunnar í knattspyrnu voru einnig tilnefnd. Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, hafði það á orði í ræðu sinni í kvöld að frammistaða hópíþróttanna hefði fært íslensku íþróttahreyfingunni nýtt fjöregg ef svo má að orði komast. Karlalandsliðið í körfubolta varð hlutskarpast í kjörinu en liðið tryggði sér í fyrsta sinn í íslenskri körfuknattleikssögu þátttökurétt í lokakeppni Evrópumótsins. Frammistaða liðsins í undankeppninni og sætið í Berlín hefur vakið heimsathygli sem og riðillinn sem við munum leika í þegar kemur að stóru stundinni í Þýskalandi. Þar verður við ramman reip að draga, verkefni sem landsliðsmennirnir okkar munu taka fagnandi!
 
 
Rúsínan í pylsuendanum var svo sjálfur Jón Arnór Stefánsson. Aðeins í annað sinn í sögunni var körfuknattleiksmaður kjörinn íþróttamaður ársins. Báðir eru þeir KR-ingar, viðeigandi þar sem KR drottnar yfir boltanum í dag. Ætli nokkur hafi fagnað meira í Gullhömrum í kvöld heldur en Kolbeinn Pálsson þegar kjörinu var lýst, Kolbeinn, fyrsti íþróttamaður ársins úr röðum körfuboltans hefur aldrei látið deigan síga og verið virkur í starfi hreyfingarinnar frá því hann tók skóna af parketinu.
 
Jón þakkaði foreldrum sínum innilega fyrir stuðninginn í kvöld og var auðmjúkur. Hann er einkar vel að titlinum kominn þó margir hafi verið um hituna. Í níunda sinn var Jón í hópi topp tíu íþróttamanna í kjörinu en fyrir kvöldið hafði hann aldrei endað ofar en í 4. sæti. Vissulega hefði verið magnað að ná Jóni og Pétri Guðmunds saman í kvöld en vinnan kallar hjá þeim fyrrnefnda, það er þétt dagskrá að spila með einu af sterkustu félagsliðum heims!
 
Til hamingju íslenskur körfuknattleikur!
 
(Ingigerður Jónsdóttir móðir Jóns Arnórs tók við verðlaununum fyrir son sinn í kvöld) 
 
Jón Arnór Stefánsson á topp tíu í kjöri á Íþróttamanni ársins
(samantekt Óskar Ófeigur Jónsson, íþróttafréttamaður hjá Vísir/Fréttablaðið)
 
1. sæti – 1 sinni (2014)
2. sæti – Aldrei
3. sæti – Aldrei
4. sæti – 3 sinnum (2005, 2007, 2013)
5. sæti – 1 sinni  (2003)
6. sæti – 1 sinni  (2009)
7. sæti – 1 sinni  (2002)
8. sæti – 1 sinni  (2004)
9. sæti – Aldrei
10. sæti -  sinni (2008)