Hassan Whiteside kom inn af bekknum fyrir Miami Heat í leik þeirra gegn Chicago Bulls í United Center í gærkvöldi. Guttinn gerði sér lítið fyrir og skoraði 14 stig, tók 13 fráköst og varði 12 skot á 24 mínútum. Geri aðrir betur.
 
Whiteside er því sá þriðji í sögu NBA (m.v. þá tölfræði sem nær aftur til 85-86) sem kemur af bekknum og nær þrennu á þennan hátt. Hinir tveir eru Larry Sanders og Shawn Bradley. Hann er sá eini í sögu deildarinnar sem hefur náð slíkri þrennu á undir 30 mínútum. Hann er einnig fyrsti leikmaðurinn til að ná 12+ vörðum skotum á innan við 25 mínútum, síðan Manute Bol náði 13 vörðum skotum á 20 mínútum með Golden State 1989.
 
Þegar hann var spurður út í þetta afrek sagðist hann bara vera að reyna að bæta einkunnina sína eða það sem kallað er “Player Rating” í NBA 2K tölvuleikjaseríunni. Gefið þessum meistara vindil!