Hann er fæddur árið 1955 og heitir Ívar Webster en var skýrður Dacarsta Webster og undir því nafni gengur hann í dag.  Ívar Webster eins og við þekkjum hann hér á Íslandi átti nokkuð farsælan feril hér á íslandi á 8 áratug síðustu aldar. Ívar spilaði með Haukum, KR, Þór Akureyri og Val (hugsanlega fleirum) hér á landi og náði að landa þeim stóra með liði Hauka. Ívar fór varla framhjá mörgum á þessum árum og í viðtali í Vikunni árið 1994 sagðist hann reglulega lenda í stríðni vegna hörundslitar og hæðar sinnar. 
 
Það var hinsvegar á einum tímapunkti sem kappanum leið nokkuð vel en það var þegar hann fór á skemmtistað í Reykjavík með hinum hávaxna Pétri Guðmundssyni . “Þá horfðu allir á hann en ekki mig sem var annars venjan fyrstu árin mín hér á Íslandi. Og ég man að mér leið yndislega vel, ég var sá venjulegi en hann var fríkið” sagði Ívar í þessu viðtali. 
 
En hvar er Ívar í dag? “Ég bý í Wilmington, Delaware um ca 30 mínútur frá heimabæ mínum.  Ég hef verið að þjálfa körfubolta hjá menntaskólum hér eins og Christian High School og svo var ég aðstoðar þjálfari hjá Wilmington háskólanum um tíma. Svo er ég með mitt eigið fyrirtæki sem annast þrif og er einnig að selja Kirby ryksugur sem eru hágæða amerísk vara.” sagði Ívar þegar Karfan.is sló á þráðinn hjá honum. 
 
Ívar kom ekki bara við í Körfuboltanum hér heima heldur var hann fengin í ýmis hlutverk líkt og að leika í kvikmyndum og meira segja átti hann senu í áramótaskaupinu eitt árið. 
“Ég sakna íslands fyrir margar sakir en þó sérstaklega sakna ég barna minna og barna-barna minna.  Ég sakna einnig þess að spila körfubolta og með íslenska landsliðinu. Ferska loftið, vatnið, maturinn, landslagið og ferðalög mín um landið eru mér einnig alltaf ofarlega í huga.” sagði Ívar  En hvenær spilaði Ívar síðast körfubolta?
 
“Ég spilaði fyrir um 10 árum síðan hérna úti með leikmönnum sem voru hættir að spila atvinnubolta og svo tek ég í boltann aðeins á sumrin.” sagði Ívar og man vel eftir árum sínum hérna heima og sínum helstu samherjum og andstæðingum.  ”Mínar bestu minningar eru frá því að ég vann titlana tvo með Haukum. Minn uppáhalds samherji var Pálmar Sigurðsson sem var frábær skytta og enn betri leikstjórnandi en annars voru allir þeir sem ég spilaði með Haukum mér mjög sérstakir. Þetta var frábært lið og frábærir gaurar.  Mínir erfiðustu mótherjar voru að sjálfsögðu Pétur Guðmundsson, Teitur Örlygsson ég man vel eftir honum og bróðir hans Sturla Örlygsson. Ekkert voðalega hár í loftinu en virkilega sterkur.  Jón Kr Gíslason var frábær bakvörður og Valur Ingimndarson einstök skytta sem og Guðni Guðnason.” 
 

Frétt úr Degi frá  því 1986.
 
Ívar spilaði fjöldan allan af leikjum hér á Íslandi og aðspurður hvort einhver einn leikur hafi staðið uppúr nefndi hann leik sem þeir Haukar spiluðu í Evrópukeppni og unnu gegn liði frá Svíþjóð. 
 
En hvað ber framtíðin í skauti fyrir “Websterinn” eins og hann var jafnan kallaður hér um árið? ” Mig langar virkilega að komast aftur í þjálfun og vissulega ef það er eitthvað lið þarna á íslandi sem vantar vanan þjálfara þá væri ég virkilega til í að koma og fá tækifæri til þess að þjálfa.” sagði Ívar að lokum