Ísland mætti Georgíu í Evrópukeppni U18 B deildar karla í gær. Sigur hafðist upp úr krafsinu þrátt fyrir slakan leik okkar manna í fjórða hluta. Georgíumenn nýttu sér það og söxuðu niður 20 stiga forystu Íslendinga niður í sjö stig þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af leiknum.
 
Jafnt var í lok fyrsta hluta 24-24 en í næstu tveimur leikhlutum spíttu íslensku strákarnir í lófana og náðu 20 stiga forystu með 10/22 skotsýningu fyrir utan þriggja stiga línuna. Þar af voru 4/5 í upphafi þriðja hluta. 
 
Liðið hitti nokkuð vel fyrir utan í leiknum og endaði með 16/39 nýtingu sem er 41%.
 
Frákastabaráttan var jöfn í 38 en Íslendingar skoruðu mun fleiri körfur eftir stoðsendingar og enduðu leikinn með 25 á móti 16 frá Georgíu. 
 
Íslensku strákarnir hittu ekkert, hvort sem það voru sniðskot eða stökkskot utan að velli og töpuðu boltanum ítrekað í upphafi fjórða hluta. Íslenska liðið skoraði ekki stig fyrstu þrjár mínúturnar. Í stöðunni 74-81 með um 1:30 eftir af klukkunni setti Magnús Már stökkskot niður eftir stoðsendingu frá Kára. Örvæntingarfullt þriggja stiga skot frá Georgíumönnum geigaði og lenti boltinn í höndunum á Kristni Pálssyni. Hann endaði svo með að negla niður sínum þriðja þrist í leiknum þegar tæp mínúta var til leiksloka eftir enn eina stoðsendinguna frá Kára sem endaði með 8 slíkar í leiknum.
 
Það reyndist vera naglinn í koffortið og Georgíumenn urðu að játa sig sigraða þrátt fyrir gott áhlaup.
 
Jón Axel Guðmundsson var stigahæstur Íslendinga með 18 stig auk þess sem hann bætti við 5 fráköstum og 5 stoðsendingum. Magnús Már Traustason skaut vel í leiknum og endaði með 12 stig og 6/8 nýtingu í skotum. 
 
 
Mynd:  Kristinn Pálsson átti mikilvæga körfu fyrir íslenska liðið. (FIBA Europe / Ville Vuorinen)