Þorsteinn Finnbogason söðlar nú um og segir skilið við Hauka og heldur áleiðis heim til Grindavíkur en hann mun leika með gulum á næsta tímabili. Þorsteinn sem varð 25 ára gamall á dögunum fékk heldur betur súrsæta afmælisgjöf þegar hann fagnaði 25 ára afmæli sínu.
 
 
Vinir Þorsteins gáfu honum þessa laglegu mynd sem hann heldur á en þar sést Jeron Belin fyrrum leikmaður Njarðvíkinga troða all svakalega í leik gegn Haukum. Hin ólánsama sál sem troðið er yfir er sjálft afmælisbarnið, Þorsteinn. Já, hver þarf óvini þegar maður á svona vini?
 
En eins og áður greinir heldur Þorsteinn í raðir Grindvíkinga á nýjan leik eftir tveggja tímabila veru í röðum Hauka. Úr heimahéraði tekst honum væntanlega að launa þessum svokölluðu vinum sínum lambið gráa en Þorsteinn sagði við Karfan.is að hann myndi hengja myndina upp í vinnunni sinni, hann hreinlega legði ekki í það að hafa hana uppi á vegg heima hjá sér.