Ákveðin pattstaða hefur er komin upp á leikmannamarkaði NBA deildarinnar. Þreifingar hafa verið milli aðila og rulluspilarar og bekkjavermar hafa verið festir á samning. Stóru bitarnir hanga hins vegar enn og það er að mörgu leyti þeim félögum Carmelo Anthony og LeBron James að kenna.
 
LeBron James er í fríi og vill ekki láta trufla sig þar. Hann hefur sent umboðsmann sinn Rich Paul út á örkina sem allt í einu er orðinn einn valdamesti maður í bandarísku íþróttalífi. Hann hittir öll lið fyrir hönd LeBron og mun sjá um að semja fyrir hann.
 
LeBron hefur hins vegar látið koma því til skila að ef Pat Riley og félagar í Miami Heat takist að mynda þokkalegan hóp innan skamms sé hann reiðubúinn til að fara hvergi með hæfileika sína og halda þeim á Suðurströnd.
 
Hljómar einfalt, ekki satt? Pat Riley með aðeins $2 milljónir fastar í bókunum fyrir næsta ár og nóg rými til að hlaða inn stórum bitum. En þetta er ekki alveg svo einfalt.
 
LeBron hefur ekki tjáð Riley um hvaða leikmenn hann vilji til Heat, eða í það minnsta hefur það ekki verið gert opinbert. Hann vill bara almennilegan leikmannahóp sem er tilbúinn að fara með honum í úrslitin næsta sumar – og vinna. Heat misstu Kyle Lowry úr höndunum sem framlengdi við Toronto um daginn. Riley reynir í logandi spreng að sannfæra Pau Gasol um að koma yfir á austurströndina.
 
En hvað með hina tvo í Miami tríóinu? Þeir gáfu eftir um $40 milljónir hvor af síðustu tveimur árunum á samningum sínum hjá Heat. Það eru hvorki meira né minna en 4,5 milljarðar íslenskra króna. Til þess eins að heyra LeBron tala um að hann sé að skoða aðra möguleika. Bosh og Wade vilja – skiljanlega – ekki semja við Miami aftur fyrr en það er komið á hreint hvort LeBron ætlar að koma aftur eða ekki. Ef hann kemur aftur þá gætu þeir sennilega hugsað sér að lækka launakröfur, en ef ekki verða menn að hugsa um sjálfan sig.
 
Vitað er að Bosh hefur leitað til Houston og telur það álitlegan kost, en Rockets gera að sjálfsögðu ekkert í því fyrr en LeBron og Melo hafa ákveðið sig. Ekkert hefur heyrst af þreyfingum Dwyane Wade.
 
Það mun reynast Pat Riley þrautin þyngri að finna fjórðu stjörnuna til að semja við liðið þar sem ekkert er vitað um hverjir, ef einhverjir, af tríóinu koma til baka. Það vill enginn festa sig til 3-4 ára á sökkvandi skipi.
 
Hvað snýr að LeBron þá eru áhugaverðustu kostirnir fyrir hann án efa Cleveland Cavaliers, með Kyrie Irving, Andrew Wiggins og Tristan Thompson. Tala nú ekki um ef þeim tekst að halda Spencer Hawes sem myndi hjálpa mikið við að teygja út varnir. Phoenix Suns hafa einnig komið sterklega til greina með ungt og sprækt lið sem er tilbúið að hlaupa. Dallas hefur einnig verið nefnt með Dirk Nowitzki sem er nýbúinn að framlengja fyrir aðeins $10m á ári og Tyson Chandler kominn aftur í hópinn.
 
Nú bíða hins vegar allir eftir ákvörðun Melo. Hann er sá sem flest lið eru á eftir. Hann er sá sem liðin telja sig mögulega getað fengið, sama hvað LeBron gerir. Melo hefur hitt Chicago Bulls, Houston Rockets og Los Angeles Lakers, ásamt fleiri liðum. Allt bendir til þess að ekkert gerist og leikmannamarkaðurinn verði frosinn þar til hann er búinn að ákveða sig. Hann ætlar að tilkynna sína ákvörðun eftir helgina.
 
Melo, þrátt fyrir alla fundina í vikunni, hefur opinberlega lýst áhuga á því að fá Pau Gasol yfir til New York Knicks. Heimildarmenn segja hins vegar Chicago eða OKC Thunder vera efst á listanum hjá Spánverjanum.
 
Síðustu fréttir herma að Mark Cuban og Mitch Kupchak hefðu sést í Cleveland þar sem þeir hafa átt að vera á fundum með Rich Paul, umboðsmanni LeBron. Hvort það gefi til kynna að þeir séu ekki bjartsýnir á að Melo semji við liðin þeirra og ætli að einbeita sér að LeBron, verður að koma í ljós.
 
Ætli þessa gutta í þessu myndbandi hefði órað fyrir því að þeir myndu halda NBA deildinni í heljargreipum 12 árum síðar?