Það hefur oft verið talað um og búist við að Chicago Bulls myndu nota svokallaða Amnesty klausu á Carlos Boozer og nú lítur út að þeir ætli að láta verða af því. Ef marka má fréttir frá Chicago Sun Times verður Boozer ekki partur af Bulls mikið lengur.
 
Amnesty klausan gerir það að verkum að Bulls geta slitið samningum við Boozer, sem fær þó áfram greitt frá liðinu, án þess að það hafi áhrifa á launaþakið né þann skatt sem settur er á laun umfram launaþaks.
 
Það hefur ekkert farið á milli mála að Bulls ætla sér í Carmelo Anthony eltingarleikinn og voru að vonast eftir ná svokölluðum „skrifað og skipt“ (sign and trade) samning við Knicks með Boozer inniföldum í þeim pakka. Phil Jackson hins vegar hefur engan áhuga á að bæta Boozer á leikmannalistann hjá sér. Í ljósi þess verða Bulls að fá Anthony til sín sem „free agent“ og nota amnesty klausuna á Boozer til að búa til pláss undir launaþakinu.
 
Anthony er hins vegar ekki eini leikmaðurinn sem Bulls hafa augastað á. Aðstandendur liðsins eru víst á leiðinni til L.A. að hitta Pau Gasol sem er með frjálsa samninga hjá Lakers og standa vonir Bulls-manna að þeir geti bætt þeim báðum á leikmannalista Bulls fyrir næsta tímabil.

Mynd: Tími Carlos Boozer hjá Bulls gæti verið liðinn