Nú á næstu dögum býst KR-ingurinn Kristófer Acox við því að verða full hraustur af meiðslum sínum en hann missti af langstærstum hluta síðasta tímabils með Furman háskólanum í NCAA deildinni í Bandaríkjunum vegna meiðslanna.
 
 
KR-ingurinn öflugi var á dögunum valinn í 30 manna æfingahóp A-landsliðsins en hann mun ekki verða með landsliðinu í sumar en það staðfesti Kristófer við Karfan.is fyrir skemmstu.
 
„Þjálfararnir mínir við skólann heimila mér ekki að taka þátt í landsliðsverkefnunum út af fætinum,“ sagði Kristófer sem er að glíma við álagsbrot í fæti.
 
„Ég býst við að ná fullum bata núna á næstu dögum en þjálfarar mínír mátu það þannig að það væri ekki hægt að taka sénsinn á því að eitthvað kæmi fyrir í landsliðssumrinu,“ sagði Kristófer sem er annar maðurinn til að heltast úr lestinni en þegar hefur Jakob Örn Sigurðarson gefið það út að hann taki ekki slaginn með landsliðinu í sumar.