Íslenska kvennalandsliðið er komið í úrslit Evrópukeppni smáþjóða eftir öruggan sigur á Skotlandi í undanúrslitum í dag. Íslenska liðið var við stýrið frá upphafi til enda og urðu lokatölur 85-59 Íslandi í vil. Ísland mætir Austurríki eða Möltu í úrslitum á morgun en undanúrslitaviðureign þjóðanna fer fram kl. 19:00 að staðartíma í Austurríki eða kl. 17:00 að íslenskum tíma.
 
 
Helena Sverrisdóttir var atkvæðamest í íslenska liðinu með 16 stig, 8 fráköst og 8 stoðsendingar en þær Hildur Björg Kjartansdóttir, Pálína Gunnlaugsdóttir og Kristrún Sigurjónsdóttir voru allar með 10 stig. Ísland leiddi 40-27 í hálfleik þar sem Helena var komin með 10 stig og 3 fráköst. Eftir þriðja leikhluta var staðan 62-38 og Skotar komnir úr sjónmáli og sigrinum siglt inn til hafnar af öryggi.
 
Helena Sverrisdóttir var tekin snörpu tali eftir leik af heimamönnum í Austurríki sem sýndu leikinn í beinni á netinu. „Þetta var ekki auðvelt, það var mikið um villur en við stóðum okkur vel í vörninni. Nú ætlum við að fá okkur að borða og horfa svo á undanúrslitaviðureign Austurríkis og Möltu,“ sagði Helena og svaraði svo aðspðurð að hún ætti frekar von á því að mæta Austurríki í úrslitum á morgun.
 
Mynd/ KKÍ: Léttur og góður mórall er í íslenska hópnum…landsleikjahæsta kona Íslands frá upphafi, Hildur Sigurðardóttir, fær hér heiðurssæti meðal liðsfélaga sinna.