Vitað er að Carmelo Anthony er búinn að fá tilboð frá þremur liðum sem hann er búinn að funda með. Chicago Bulls geta aðeins boðið $75 milljónir á fjórum árum, Los Angeles Lakers hafa boðið honum það mesta sem þeir geta eða $96 milljónir á fjórum árum og New York Knicks trompa þetta allt með $129 milljónum á fimm árum.
Bulls hafa reynt ítrekað að bjóða Knicks að sign&trade (þar sem Melo skrifar undir hjá Knicks og fer svo strax yfir til Bulls) skipti í staðinn fyrir Carlos Boozer og eitthvað fleira. Svimandi hár samningur Boozer er verðmætur fyrir lið sem vilja losa undan launaþakinu næsta sumar en Phil Jackson hjá Knicks hefur slegið allt slíkt af borðinu. Bulls þurfa því að beita amnesty klausunni á Boozer til að losna við hann úr bókunum en það þýðir að Jerry Reinsdorf, eigandi Bulls þarf að greiða honum þessar $17 milljónir sem félagið skuldar honum fyrir það eitt að láta sig hverfa. Reinsdorf er annálaður nirfill og ekki þekktur fyrir að eyða peningum að óþörfu. Óstaðfesta fregnir herma hins vegar að þetta verði einmitt reyndin.
Bulls geta boðið honum minnstan pening en þeir bjóða hins vegar upp á besta liðið af þessum þremur nú þegar. Ef Melo bætist í hópinn þarf ekki mikið að bæta við til að þar sé kominn keppnishæfur hópur – að því gefnu að Derrick Rose haldist heill út heilt leiktímabil.
Lakers geta boðið honum töluvert hærra en leikmannahópurinn þeirra sem stendur er ekki líklegur til afreka – hvað þá ef Pau Gasol fer eitthvað annað. Lakers halda þó í vonina að takist þeim að landa Melo verði Pau sannfærður um að halda kyrru fyrir í Los Angeles.
Knicks bjóða Melo eins og áður sagði $129 milljónir fyrir næstu fimm ár. Það eru umtalsverðir fjármunir, auk þess sem hann er tryggður með max samning þar til fer að síga á seinni hluta ferilsins. Miklir fjármunir eins og áður sagði en liðið er frekar fátæklegt. Phil Jackson er þekktur fyrir að ná árangri alls staðar þar sem hann kemur, en það er óhætt að segja að það verkefni sem bíður hans í New York er tröllvaxið. Það er ekkert hægt að fegra það neitt, en líkurnar á því að hann nái að smala saman meistarahæfu liði áður en Melo færi á ókyrrast á næstsu 2-3 árum eru afar þunnar – en ekkert er ómögulegt þar sem Zen meistarinn ræður.
Carmelo Anthony þarf því nú að velja milli þess að hoppa inn í hóp sem er tilbúinn í Finals, ef þeir fá góðan skorara, en fyrir minni pening; fara til Los Angeles til vinar síns Kobe Bryant og vona það að NBA deildin leyfi tvo bolta í leik á næstu leiktíð, fyrir aðeins meiri pening; eða fara heim til New York fyrir fullt af pening og bíða og vona að Zen meistarinn töfri eitthvað fram úr erminni á næstu 2-3 árum.
Melo er flöskuháls leikmannamarkaðarins eins og er. Þegar hann ákveður sig fara öll hin félögin á fullt að eltast við aðra leikmenn. Hann sagðist ætla að tilkynna ákvörðun sína í þessari viku og deildin bíður með öndina í hálsinum.
Takið þátt í nýrri könnun hér til hægri um hvert þið haldið að Melo fari.