Þegar flautan gall í leik 5 milli Miami Heat og San Antonio Spurs í úrslitum NBA deildarinnar í byrjun júní var vitað mál að breytingar þyrftu að eiga sér stað í herbúðum Miami. Sóknin að þriðja NBA titlinum á þremur árum, afrek sem aðeins þremur félögum í NBA deildinni hefur tekist að framkvæma, bar ekki erindi sem erfiði. Vonbrigðin í augum leikmanna Heat eftir þriðja tapleikinn í röð gegn Spurs voru augljós. Eitthvað þurfti að breytast.
 
Vitað var að þokkalegur leikmannamarkaður myndi opnast í byrjun júlí en stærsti bitinn í því hlaðborði yrði Carmelo Anthony. Öll heimsbyggðin bjóst við rólyndissumri þar sem Melo myndi skoða sína möguleika og menn með lausa samninga myndu finna ný heimili. Allt kom fyrir ekki og upp hófst eitt allra furðulegasta sumar og einn þéttasti leikmannamarkaður sem sögur fara af. 
 
24. júní sl., öllum að óvörum, segir LeBron James samningi sínum við Miami Heat lausum. LeBron átti eftir tæplega $43 milljónir og tvö ár eftir af samningi sínum við liðið. Fyrstu viðbrögð allra voru að hér væri fyrsta skrefið tekið í því að búa til pláss fyrir fleiri leikmenn. Dwyane Wade og Chris Bosh myndu segja upp sínum samningum í kjölfarið og tríóið myndi svo hittast aftur í haust með fjórðu stjörnuna sem færi með þeim alla leið.
 
Það gerðu Wade og Bosh en því næst bárust fréttir af því að LeBron James muni fara fram á max samning, eða eins há laun og kjarasamningur NBA deildarinnar leyfir. Þau áform settu heldur betur göt á vonir Pat Riley um að sameina enn betra og enn sterkara Miami Heat lið næsta vetur.  Sú staða er nú komin upp að LeBron er líklegast kominn á fullt í viðræður við Cleveland Cavaliers þó hann haldi áfram að ræða við Pat Riley, Bosh er búinn að fá tilboð frá Houston Rockets upp á $88 milljónir á fjórum árum og ekkert hefur heyrst frá Wade.
 
Þetta eru ekki kjöraðstæður fyrir Pat Riley til að vinna við og setja upp lið sem gæti endurheimt titilinn á næsta ári. Nógu erfitt er að fá Bosh og Wade til að samþykkja lægri laun á meðan LeBron fær sínu fram, ofan á það að sækja þokkalega menn með lausa samninga út á markaðinn.  Fáir leikmenn með lausa samninga vilja skrifa undir neitt fyrr en Carmelo Anthony hefur ákveðið sig, því þá losnar um ansi mikið fjármagn sem mörg lið hafa haldið eftir í von um að Melo komi yfir.
 
Því næst er að sannfæra þessa viðbótarleikmenn sem Riley þarf að sækja, um að þríeykið mæti aftur til Miami í haust en fréttir undanfarið hafa bent til annars. 
 
Miami Heat samdi í dag við Danny Granger og Josh McRoberts. Ágætisleikmenn en varla nóg til að LeBron sannfærist, en þeir sömdu við Heat með það í huga að sólstrandargæjarnir myndu sameinast aftur. 
 
Rich Paul, umboðsmaður LeBron hefur rætt við nokkur lið í deildinni en allt útlit er fyrir að valið hjá James muni standa á milli Cleveland Cavaliers og Miami Heat. Phoenix voru í myndinni áður en svo virðist sem það sé að renna út í sandinn. 
 
Hvers vegna Cleveland?
 
Cavs eru með flottan hóp nú þegar í Kyrie Irving, Andrew Wiggins og Tristan Thompson. Gamli vinur LeBron, Anderson Varejao er þarna enn og hver veit nema Anthony Bennett brenni af sér lýsið og fari að spila eins og nr.1 pikk. Kjarninn er góður og þeir hafa rými til að bjóða LeBron þann pening sem hann vill. Týndi sonurinn myndi snúa aftur og hann yrði hetja heimabæjarins enn og aftur. Umboðsfyrirtæki LeBron, Klutch Sports er með Andrew Wiggins og Tristan Thompson á sínum snærum og það er líka hagsmunamál fyrir hann að nýta sér þessar samningaviðræður til að smyrja á þeirra samninga í komandi framtíð. Þar að auki eiga Cavs enn valrétti upp á framtíðina, ólíkt Miami.
 
Ég fullyrði það einnig að aldrei nokkru sinni fyrr hafa fjögur nr. 1 pikk spilað saman í sama liðinu á sama tíma. Það yrðu, LeBron, Kyrie, Wiggins og Bennett.
 
LeBron þyrfti hins vegar að sættast við Dan Gilbert, eiganda liðsins sem skrifaði hið alræmda bréf til LeBron þegar hann fór til Heat árið 2010. Það bréf hefur nú verið fjarlægt af vefsíðu Cavaliers.
 
Hvers vegna Miami?
 
Heat eru með þunnan hóp sem stendur, en fullt af plássi til að manna hann. Hann gæti fengið sinn max samning og hinir lækkað sig til að fá fleiri og betri leikmenn og allt yrði eins og áður. Líkurnar á því þynnast hins vegar með hverjum deginum sem líður. Það freistar eflaust Chris Bosh að fara til Houston fyrir max pening inn í hóp sem er tilbúinn til afreka í úrslitakeppninni, að því gefnu að þeir haldi Chandler Parsons. Howard myndi hirða fráköstin og Bosh teygja vörnina sem stretch fjarki með langskotum, auk þess að hann yrði í heimafylkinu sínu Texas. Ef Bosh færi gætu Heat farið á fullt á eftir Pau Gasol eða jafnvel Kevin Love. Love yrði mjög gott upgrade fyrir Bosh sóknarlega, en ekki svo mikið varnarlega.
 
Staðreyndin er hins vegar sú að LeBron getur í sjálfu sér farið hvert sem hann vill. Hann vill halda áfram að vinna körfuboltaleiki og mun aðeins fara þangað sem árangur er sýnilegur.
 
Farið hefur lítið fyrir Dwyane Wade í þessu fjaðrafoki öllu. Ekkert hefur heyrst af viðræðum hans við Heat eða önnur lið í deildinni. Hvar stendur hann í þessu öllu saman? Fyrir hvað fórnaði hann $42 milljónum fyrir næstu tvö ár? Hvað þá Udonis Haslem sem fórnaði sínum $4,6 milljónum af sömu ástæðu.
 
Pat Riley þarf að bregðast hratt við þegar Carmelo-stíflan losnar og finna alla minni bitana sem gætu þóknast hans hátign King James. Hann er farinn að renna hýru auga til heimaslóðanna en mun hins vegar alltaf hlusta á Riley, komi hann með einhverja töfralausn.
 
Pat Riley, einhver mesti bragðarefur sem deildin hefur kynnst, er hins vegar að renna út á tíma.