Helena Sverrisdóttir snéri ökklann lítillega í leik Íslands gegn Gíbraltar í gær. Hún fór út af velli í leiknum vegna þessa eftir 14 mínútur og þá með 20 stig og 9 fráköst. Karfan.is forvitnaðist um stöðuna á henni fyrir næsta leik.
 
“Já, ég verð með í næsta leik,” sagði Helena. “Ég hefði klárað leikinn í gær ef munurinn hefði ekki verið svona mikill.”
 
Helena sagðist geta stigið í fótinn án vandræða svo hún ætti að verða klár fyrir leikinn í undanúrslitunum á föstudaginn. “Það verður fínt að fá frí í tvo daga,” bætti Helena við.
 
Helena leiðir alla leikmenn í stigaskori á mótinu með 18,0 stig að meðaltali í leik og er í öðru sæti yfir fráköst með 8,0. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir er í fimmta sæti í fráköstum með 7,5 og einnig í fimmta sæti í stoðsendingum með 2,5 í leik.
 
Ísland hefur unnið báða leiki sína á mótinu til þessa með samtals 129 stiga mun og gjörsigraði A riðil mótsins. Ísland er því komið í undanúrslit en mótherjinn þar er enn óákveðinn þar sem tveir leikir eru enn eftir í B riðli.
 
Ísland leiðir mótið í stigaskori og í öðru sæti í öðrum tölfræðiliðum eins og sést hér að neðan.