Íslensku strákarnir í U-18 liðinu spiluðu úrslitaleik um að komast í 8 liða úrslit í dag gegn liði ísreal.  Eftir að hafa átt möguleika á að gera út um leikinn í venjulegum leiktíma héldu strákarnir í framlengingu og þrátt fyrir gríðarlega góða baráttu á lokasprettinum náðu okkar menn ekki að innbyrða sigur.  Einar Árni Jóhannsson þjálfari liðsins sagðist vera sár og svekktur eftir þessi úrslit en umfram allt gríðarlega stoltur af liði sínu og baráttu þess í dag.  Við grípum hér að neðan í frétt leiksins af KKÍ.is 
 
 
 Það voru sársvekktir en umfram allt flottir íslenskir strákar sem gengu af velli hér í Sofia eftir mikinn baráttuleik gegn Ísraelum þar sem barist var um annað sætið í riðlinum. Ísrael hafði betur 82-81 eftir framlengdan leik og orð fá því ekki lýst hversu svekktir strákarnir eru því þeim fannst þeir gera nóg til að vinna í dag.
 
Leikurinn fór ekkert sérlega vel af stað fyrir okkar menn, þar sem leikmenn Ísrael voru áræðnari og einfaldlega grimmari í upphafi. Ísrael leiddi 14-22 eftir fyrsta leikhluta.
 
Í öðrum leihluta sýndu strákarnir styrk og komu jafnt og þétt til baka. Þeir náðu að jafna um miðbik leikhlutans og meira sjálfstraust færðist yfir liðið. Ísrael leiddi þó enn með 8 stigum í hálfleik en staðan var 30-38.
 
Það var alveg ljóst í síðari hálfleik að okkar menn ætluðu að selja sig dýrt. Varnarleikurinn þéttist og íslenska liðið fékk bæði körfur úr hraðupphlaupum og strákarnir voru þess utan að spila vel á hálfum velli þar sem boltaflæðið var gott og þristarnir fóru að detta. Staðan eftir þriðja leikhluta var 52-58.
 
Pétur Rúnar og Magnús Már komu sterkir af bekknum í síðari hálfleik og Pétur átti nokkur góð gegnumbrot sem skiluðu liðinu körfum. Stemmingin var að færast yfir á íslenska liðið sem komst í yfir með 3ja stiga körfu frá Magnúsi um miðbik fjórða leikhluta en aftur jafnaði Ísrael með þrist. Lokamínúturnar voru svo hádramatík þar sem að liðin skiptust á að leiða en Kári Jónsson fór á línuna þegar 18 sekúndur voru eftir og Ísrael einu yfir. Kári setti fyrra vítið og jafnaði leikinn en hið síðara geigaði og íslenska vörnin hélt á lokasekúndunum og framlenging því staðreynd.
 
Í framlengingunni byrjuðu Ísraelar betur og gerðu fyrstu fimm stigin en enn og aftur komu okkar menn til baka. Kristinn Pálsson setti þrist og kom Íslandi einu stigi yfir þegar um tvær mínútur voru eftir en Ísrael skoraði og komst aftur einu yfir. Jón Axel skoraði svo fyrir Ísland og forystan aftur okkar en Kári Jónsson fékk svo ódýra villu á lokakaflanum og Ísrael var komið í bónus og setti tvö vítaskot. Lokasekúndurnar voru svo æsispennandi. Bæði lið misstu skot og íslenska liðið náði svo að vinna boltann aðra vörnina í röð og náði hraðupphlaupi en misstu sniðskot og íslenska liðið þurfti að brjóta. Ísraelar hittu úr vítunum og brutu svo hinum megin á Jóni Axel sem setti sín víti ofan í og Ísrael því enn einu yfir og um 3 sekúndur eftir. Ísrael tók leikhlé og upp úr innkastinu sló Jón Axel boltann í fætur Ísraela og útaf en af óskiljanlegum ástæðum dæmdi sænski dómarinn Ísraelum innkast og þar fór síðasti séns íslenska liðsins.
 
Kári Jónsson var stigahæstur í íslenska liðinu með 17 stig og gaf að auki 6 stoðsendingar. Jón Axel Guðmundsson var með 16 stig, tók 9 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Kristinn Pálsson gerði 15 stig og tók 4 fráköst. Pétur Rúnar Birgisson gerði 11 stig, tók 8 fráköst og stal 5 boltum.
 
Tölfræði leiksins
 
Í liði Ísrael er leikstjórnandi að nafni Tamir Blatt, en hann er sonur David Blatt sem þjálfaði Euroleugue meistara Maccabi Tel Aviv í vetur og þjálfar Lebron og félaga í Cleveland Cavs næsta vetur. Strákarnir gerðu einstaklega vel gegn honum en hann var stigalaus eftir að hafa átt frábæran leik gegn Eistum í gær þar sem að hann var með 20 stig, 14 stoðsendingar og 8 fráköst.
 
Aftur að leiknum, tapið er sárt og íslenska liðið var lítt hrifið af þónokkrum ákvörðunum sænska dómarans í tríóinu en það þýðir ekkert að dvelja við þetta. Þriðja sætið er raunin í riðlinum eftir 2ja stiga tap gegn Þjóðverjum og eins stigs tap gegn Ísrael í framlengingu. C og D riðlar (Ísland er í D) virðast töluvert sterkari en A og B svo íslenska liðið fær krefjandi verkefni í milliriðli í baráttunni um sæti níu til sextán. Andstæðingarnir verða Noregur og Makedónía.
 
Á morgun er fyrsti frídagur eftir fimm leikja törn og strákarnir hlaða batteríin. Leikirnir gegn Norðmönnum og Makedóníu eru svo á miðvikudag og fimmtudag og svo kemur annar frídagur áður en leikið er í krossspili og um sæti á laugardag og sunnudag. Markmið íslenska liðsins er einfalt héreftir. Þeir ætla sér að vinna þessa fjóra leiki og ná 9.sæti mótsins.