Miðherjinn Finnur Atli Magnússon segir nú skilið við Stykkishólm og heldur heim í faðm Íslandsmeistara KR. Finnur skrifaði í gær undir nýjan tveggja ára samning við uppeldisfélagið sitt.
 
 
Böðvar Guðjónsson varaformaður KKD KR segir það mikið fagnaðarefni að fá Finn aftur eftir ársdvöl í Stykkishólmi. „Það verða væntanlega fagnaðarfundir þeirra bræðra og tilhlökkunarefni að sjá Finn Atla leggja sitt af mörkum til að vinna þá titla sem í boði eru á tímabilinu framundan.“
 
Finnur og Helgi Magnússon eru bræður svo þeir munu snúa saman bökum á komandi leiktíð en Finnur var lengi vel á síðasta tímabili nokkuð frá sínu besta formi vegna veikinda. Í 24 leikjum með Snæfell gerði hann 5,8 stig og tók 3,9 fráköst að meðaltali í leik.