Carmelo Anthony hefur ákveðið að semja aftur við New York Knicks og er búist við að hann fái fimm ára samning á bilinu $120-129 milljónir. Beðið var lengi vel eftir ákvörðun Melo en hann hefur verið að íhuga tilboð frá tveimur öðrum liðum; Chicago Bulls og Los Angeles Lakers.
 
Smáatriði samningsins hafa ekki verið gerð opinber, eins og t.d. hvert heildarverðmæti hans er, en búist er við að Melo tilkynni um ákvörðun sína seinna í dag. Fregnir herma að Phil Jackson, framkvæmdastjóri liðsins hafi ekki viljað bjóða leikmanninum hámarkssamninginn sem hann fór fram á en að þeir hafi mæst á miðri leið.
 
Carmelo Anthony er einn allra öflugasti skorari NBA deildarinnar og mikilvægur partur af því uppbyggingarstarfi sem hafið er í New York, að sögn Derek Fisher nýráðnum þjálfara liðsins. 
 
Melo skoraði 27,4 stig að meðaltali í leik á síðustu leiktíð og tók 8,1 frákast sem er hans mesta á ferlinum. Hann skaut einnig yfir 40% fyrir utan þriggja stiga línuna.
 
Hann er ekki beisinn leikmannahópur Knicks fyrir næstu leiktíð með Melo, Jose Calderon og Iman Shumpert í broddi fylkingar. Amar’e Stoudemire er þó búinn að lofa því að hann verði kominn í All-Star form áður en leiktíðin hefst en hann hefur síður en svo staðið undir þeim launum sem Knicks ákváðu að greiða honum árið 2010. 
 
Launaþakið verður Knicks til ama á næstu leiktíð því þeir eru með tvo leikmenn í Stoudemire og Andrea Bargnani sem saman munu taka um $45 milljónir af launaþaki liðsins. Launaþak deildarinnar fyrir næstu leiktíð verðu $63 milljónir og með $20+ milljóna samning Carmelo í bókunum fara þeir yfir þakið með þeim þremur og langleiðina í skattmörkin sem sett verða í $76,8 milljónir. 
 
Frelsið verður því ekki mikið hjá Phil Jackson til afreka þetta árið en þeir félagar Jackson og Fisher hafa lofað því að blásið verði til sóknar strax næsta sumar. Fram að því verða þeir að reyna að kreista það mesta úr Stat og Bargs en margir halda því fram að þríhyrningsmiðuð sóknarstefna Jackson muni henta Bargnani mjög vel.