Patrcik Baumann framkvæmdastjóri FIBA (Alþjóðakörfuknattleikssambandsins) er staddur á Íslandi þessa dagana og í dag gaf hann sér tíma til þess að ræða við fjölmiðla á blaðamannafundi í Laugardal. Baumann á einnig sæti í Alþjóða-ólympíunefndinni (IOC) en á meðal erinda hans hér á Íslandi var að fara að leiði vinar síns Ólafs Rafnssonar sem og að heimsækja fjölskyldu hans. Körfuknattleikssamband Íslands hélt sérstakan fund vegna heimsóknar Baumanns þar sem hann fór fögrum orðum um Ólaf Rafnsson sem lést á síðasta ári.
 
 
Á fundinum sagði Baumann að það hefði verið löngu orðið tímabært að heimsækja Ísland og að Ólafur heitinn hefði oftsinnis boðið honum til landsins en fyrst núna hefði hann loks getað gefið sér tækifæri til þess að koma. Baumann sagði Ólaf njóta mikillar virðingar og þökk sé vinnu Ólafs hafi margar mikilvægar breytingar orðið í körfuboltasamfélaginu. Að þessu sögðu bætti Baumann við að erfiðar ákvarðanir sem Ólafur hafi staðið frammi fyrir hafi einnig bakað honum mjög svo óverðskuldaðar óvinsældir.
 
Baumann fór um víðan völl í erindi sínu, ræddi m.a. um aukna áherslu á að koma 3 á 3 keppnum betur fyrir og til stendur að 3 á 3 körfubolti verði með á Ólympíuleikunum 2020. Eins verður breyting á fyrirkomulagi heimsmeistarakeppninnar sem fer fram nú í sumar og síðan ekki aftur fyrr en 2019 og verði þannig alltaf árinu á undan Ólympíuleikum. Að loknum Ólympíuleikunum í Ríó verða settir svo inn sérstakir landsliðsgluggar þar sem leikið verður í svipuðum gluggum inni í tímabilum eins og þekkist í knattspyrnunni.
 
Hvað vöxt körfuknattleiksíþróttarinnar varðar sagði Baumann að stór markaður eins og Kína væri ört vaxandi og sagði hann hispurslaust að markmið FIBA væri að taka fram úr knattspyrnunni hvað vinsældir varðar. 
 
Karfan.is ræddi við Baumann í Laugardal í dag en viðtalið við hann má sjá hér að neðan:
 
 
 
Mynd/ Jón Björn: Baumann ásamt Hannesi Jónssyni formanni KKÍ, Guðbjörgu Norðfjörð varaformanni KKÍ og Páli Kolbeinssyni meðstjórnanda í stjórn KKÍ.