Martin Hermannsson leiddi íslenska U20 ára landsliðið til 78-80 sigurs gegn Finnum á Norðurlandamótinu í dag. Martin gerði 30 stig, tók 3 fráköst og gaf 3 stoðsendingar í íslenska liðinu.
 
 
Jafnt var á öllum tölum í leiknum í dag, 23-19 fyrir Finna eftir fyrsta leikhluta, 38-38 í hálfleik og 63-63 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Martin Hermannsson reyndist hetja leiksins en hann setti niður sigurstigin þegar um 40 sekúndur voru til leiksloka með þriggja stiga skoti í öðru horninu. Flottur sigur hjá íslenska liðinu sem í gær mátti sætta sig við tap gegn Svíum.
 
Á morgun er lokaleikur Íslands á Norðurlandamóti U20 ára liðanna þegar liðið leikur gegn Dönum. Leikurinn hefst kl. 13:00 að staðartíma eða kl. 11:00 að íslenskum tíma. Til þess að Ísland verði Norðurlandameistari þarf liðið að vinna Dani á morgun og Finnar þurfa að leggja Svía.
 
Eins og áður segir var Martin Hermannsson með 30 stig, 3 fráköst og 3 stoðsendingar í íslenska liðinu, Emil Karel Einarsson bætti við 14 stigum og 7 fráköstum og þá var Maciek Baginski með 13 stig og 8 fráköst.

Þá var sigurinn ekki síður sætur fyrir Arnar Guðjónsson aðstoðarþjálfara íslenska liðsins því kappinn á afmæli í dag en hann er 28 ára, til hamingju Arnar!

 
Mynd/ Martin með U18 ára landsliði Íslands árið 2012 í leik gegn Finnum á Norðurlandamótinu í Solna.