Miami Heat höfðu ekki tapað tveimur leikjum í röð í úrslitakeppni síðan í úrslitum austursins 2012 á móti Boston Celtics. Miami Heat höfðu aldrei tapað tveimur leikjum á heimavelli í úrslitakeppni síðan LeBron James kom til liðsins. 
 
Þar til nú.
 
Í leik þrjú slátruðu Spurs Hítlunum á þeirra heimavelli og það var við því búist að Miami liðið myndi koma argandi brjálað með grjótharða vörn í leik fjögur í gær. Sú var heldur betur ekki raunin. Fjarri því.
 
Nákvæmlega sama liðið mætti til leiks. Gersamlega andlausir á báðum endum vallarins. Skíttöpuðu frákastabaráttunni 44-27, hittu skelfilega (að LeBron James undanskildum), aðeins 13 körfur hjá Miami komu eftir stoðsendingar á móti 25 hjá Spurs.
 
Spurs hægðu leikinn niður í gönguhraða eða 84 sóknir (sem samsvarar 70 í Dominosdeildinni) og náðu því Spurs að skora 130,5 stig per 100 sóknir en héldu svo Heat í 100 stigum per 100 sóknir. 
 
Kawhi Leonard leiddi Spurs með 20 stig og 14 fráköst en Tony Parker fylgdi fast á eftir með 19. Boris Diaw var frábær með 8 stig, 9 fráköst og 9 stoðsendingar.
 
Hjá Heat var það einvörðungu LeBron James sem á skilið að vera nefndur á nafn en hann var með 28 stig og 8 fráköst auk þess sem hann hitti 10/17 í skotum. Hreint skelfilegur leikur hjá restinni af liðinu. Það er klárt mál að hinir verða að rífa höfuðið úr afturendanum og fara að spila körfubolta til að halda lífi í þessari seríu. Spurs eru að fara aftur heim til Texas núna með 3-1 forystu og geta klárað þetta í næsta leik ef ekkert gerist hjá Miami. LeBron getur einfaldlega ekki klárað þetta einn.
 
Eric Spoelstra fraus á bekknum. Henti Udonis Haslem inn á völlinn í fjórða hluta en það var einfaldlega bara of seint og of lítið. Varnarleikurinn hresstist aðeins en það hélt ekkert.
 
Ekkert lið í sögu úrslitakeppninnar hefur komið til baka eftir að lenda ofan í 3-1 holu og Heat líta ekki út fyrir að vera útbúnir til þess að snúa þeirri hefð. Spurs eru betra lið þó Heat hafi betri einstaklinga. Popovich er betri þjálfari en Spoelstra. Spurs eru hungraðri og svíður enn að hafa tapað leik 6 í fyrra. Spurs vélin malar eins og köttur og virðist ekki ætla að hiksta. 
 
Heat þurfa kraftaverk til að snúa þessari hörmung við en ef eitthvað lið gæti gert það þá er það LeBron James og Heat.
 
 
Fylgist með Ruslinu á: