Miami Heat, eða öllu heldur LeBron James beit hressilega frá sér í fyrsta hluta leiks 5 gegn San Antonio Spurs í gær.  Hann réðst á körfuna, skaut fyrir utan og var með Miami Heat liðið á bakinu. Frábærir leikmenn eins og LeBron James þurfa samt aðstoð þegar komið er í úrslitin.  Sérstaklega gegn svona liði eins og San Antonio Spurs.  Hún var hins vegar ekki í boði og því töpuðu Miami Heat þessum leik 87-104 og þessari seríu 1-4. 
 
Spretturinn hjá Heat í byrjun var vegna þess að Spurs spiluðu illa. Þungir í vörn og klísturboltinn var ríkjandi í byrjun. Í hvert skipti sem boltinn fékk að ganga skoruðu þeir. 
 
Í öðrum leikhluta fór vélin í gang.
 
Boltinn flaug milli leikmanna Spurs og allir opnuðust. Heat vörnin datt niður á hælana náði ekki að fylgja eftir. Patty Mills, Kawhi Leonard og Manu Ginobili fóru að hitta. Mills setti niður 5/8 í þristum. Manu tróð í grímuna á Chris Bosh og setti svo strax niður þrist. Kawhi Leonard steig upp í sókn auk þess að spila fantavörn eins og venjulega á LeBron James. Kawhi endaði sem MVP úrslitanna.
 
Kawhi gekk illa í byrjun úrslitanna en hann var kannski að einbeita sér of mikið á varnarhlutverkið gagnvart LeBron. Kawhi er búinn að eiga frábært tímabil sóknarlega og búinn að vaxa mjög mikið síðan í fyrra og sagði Popovich honum að hætta að hugsa svona mikið um þetta og láta leikinn koma til sín. Spila bara og hafa gaman.  Það stóð ekki á áhrifunum. Drengurinn skoraði yfir 20 stig og með um 10 fráköst í næstu þremur leikjum. Popovich sagðist aldrei hafa kallað kerfi fyrir hann. Allt sem hann gerði kom út úr flæði sóknarinnar og það sem hann skapaði sjálfur. Framtíðarleikmaður San Antonio þar á ferð.
 
Eins og svo oft áður var LeBron einn með púls hjá Miami. Restin af liðinu var í feluleik. Pat Riley þarf að fara í endurskoðun á þessu liði því það er ekki að virka eins og það er í dag. LeBron þarf fleiri möguleika. Hann er ekki sami morðinginn inni á vellinum og hinir tveir sem honum er líkt við. Hann þarf solid rulluspilara með sér til að ná árangri. Wade þarf að víkja eða taka massífa launalækkun til að fá meira af vopnum í liðið.
 
Á blaðamannafundi eftir leikinn hélt LeBron áfram að taka upp hanskann fyrir liðsfélaga sína. “We played bad.” Sem er ekki rétt. LeBron spilaði vel, ekki restin af liðinu og hann væri í fullum rétti að láta þá heyra það.  
 
Magnaður sigur hjá Spurs og liðsheildinni. Magnað að sjá lið sem gengur svo lítið út á einstaklingsframtak eins og Spurs verða meistarar í deild sem einkennist af einstaklingsframtaki stórstjarna. Það hefur ekki verið auðvelt verk að velja einhvern einn leikmann til að hljóta MVP verðlaunin.  Upprisa Kawhi Leonard var hins vegar samferða endurkomu liðsins og því hætt við að hún hafi skipt meira máli en margir halda.
 
Þrátt fyrir þessa útreið sem Spurs veittu Heat og hversu ójöfn þessi sería var í raun og veru, þá var þetta bara svo mikil veisla. Hin fagra íþrótt verður enn fegurri í höndum Gregg Popovich og félaga í Spurs. Þvílíkir meistarar og vel að sigrinum komnir.