Haft er eftir Phil Jackson að skipti sem hann samdi um við Dallas Mavericks um daginn hafi verið til að bæta liðsanda félagsins. Ég er nokkuð viss um að hann eigi við Raymond Felton í því samhengi og Tyson Chandler einfaldlega verið það sem það kostaði að losa Felton úr bókum Knicks. Jackson er hins vegar hvergi nærri búinn að tálga rosterinn hjá Knicks. Hann er einsettur á að ná Melo aftur inn þó hann geti lítð boðið honum. Fyrsta skrefið er að reyna að ná í Pau Gasol.
 
Pau Gasol er með lausan samning við Los Angeles Lakers í sumar og virðast Lakers vera lítið að stressa sig að endursemja við Spánverjann. Jackson þjálfaði Gasol á sínum síðustu árum hjá Lakers en þeir þjálfarar sem komu þar á eftir hafa átt erfitt með að nýta þennan öfluga miðherja á skilvirkan hátt. Jackson mun eflaust hamra á þann blett í samningaviðræðum sínum við Gasol.
 
Jackson er heldur ekki tilbúinn að sleppa Melo alveg strax. Þó Jackson geti ekki boðið honum árangur strax eins og önnur lið þá getur hann boðið honum töluvert meiri pening en önnur lið. Knicks eru með lítið svigrúm undir launaþakinu fyrir þetta árið en það breytist næsta sumar. Þeir geta þó boðið Melo $129 milljónir á næstu fimm árum á meðan önnur lið ráða ekki við meira en $95,9 milljónir ákveði hann að fara. Þar munar um heilar $33 milljónir sem er fullt af peningum sama um hvern ræðir.
 
Nokkuð ljóst að Carmelo Anthony stendur frammi fyrir erfiðri ákvörðun – $33 milljónir í óbreyttu ástandi eða sigrar og árangur strax.