Hannes S. Jónsson formaður Körfuknattleikssambands Íslands er staddur í Þýskalandi þessa helgina á stjórnarfundi hjá FIBA Europe. Í morgun var greint frá því að Evrópumeistaramótið 2015 færi ekki fram í Úkraínu eins og áætlað var. Um risavaxið mót er að ræða og þykja aðstæður í Úkraínu um þessar mundir ekki boðlegar m.a. hvað varðar öryggi leikmanna, gesta og annarra vegna stjórnmálaástandsins þar ytra.
 
 
Karfan.is ræddi við Hannes í síma áðan og innti formanninn eftir því hvort Ísland gæti orðið eitt af þeim löndum sem myndi sækja um að halda Evrópumeistaramótið eða amk hluta þess. Mögulegt er að ef nægilega mörg lönd sæki um að halda EM 2015 að mótinu verði dreift milli nokkurra landa, þ.e. riðlakeppninni, og svo yrðu úrslitakeppnin á enn öðrum stað til viðbótar.
 
„Ef Ísland myndi sækja um að halda t.d. einn riðil af Evrópumeistaramótinu 2015 yrði sá kostnaður að lágmarki um 1,2 milljónir Evra áður en annar kostnaður kæmi til sögunnar. Eins þyrftum við að halda kepnina í viðkomandi riðli í húsnæði sem tekur um 10.000 manns í sæti. Af þessum sökum fengjum við ekki að halda keppnina þar sem aðstæður á Íslandi bjóða ekki upp á það,“ sagði Hannes en mótið er gríðarlega stórt og vinsælt og búist við að nokkur fjöldi landa taki þátt í hinu nýja útboði núna á næstu vikum þar sem EM í Úkraínu hefur verið blásið af.
 
„Svona eru bara kröfurnar, stærð og vinsældir EM koma einfaldlega í veg fyrir það. Á EM í Slóveníu í fyrra voru um 3000 gestir bara frá Finnlandi og Litháar fjölmenna líka vel á EM og þetta eru bara tvær þjóðir af þeim sem taka þátt í mótinu,“ sagði Hannes.
  
Mynd/ Eurobasket 2015 lógóið fyrir Úkraínu er frá og með deginum í dag orðið úr sér gengið.