Finnur Jónsson þjálfari U18 ára kvennalandslið Íslands hefur tekið við KR í Domino´s deild kvenna. Finnur tekur við starfanum af Yngva Gunnlaugssyni sem mun einbeita sér að yngri flokkum og uppbyggingu kvennastarfsins hjá KR. Það verða því Finnur og Finnur með meistaraflokka KR á næsta tímabili, Finnur Freyr Stefánsson með Íslandsmeistara KR og Finnur Jónsson með kvennalið félagsins.
 
 
Á heimasíðu KR segir um ráðninguna:
 
Finnur er reynslumikill þjálfari, en hann hefur síðustu 10 ár fengist við þjálfun hjá Skallagrími þar sem hann hefur verið yfirþjálfari yngri flokka, aðstoðarþjálfari meistarflokks karla í þrjú ár og þjálfari meistarflokks kvenna í fjögur ár. Í fyrra þjálfaði Finnur U15 landslið kvenna sem vann Copenhagen Invitational og nú er hann aðalþjálfari U18 landsliðs kvenna sem var að koma af Norðurlandamótinu og er á leiðinni á Evrópumótið.

“Við erum gríðarlega ánægð að fá Finn til okkar og bjóðum hann hjartanlega velkominn í KR. Spennandi tímabil er framundan og sjáum við fram á bjarta tíma í kvennakörfunni hjá KR.” sagði Guðrún Kristmundsdóttir formaður körfuknattleiksdeildar KR við undirritun samningsins við Finn í KR heimilinu í dag.