Nýkrýndir NBA meistarar San Antonio Spurs settu einhvers konar met í ár með fjölda erlendra leikmanna í meistaraliði. En hversu margir Evrópubúar hafa átt sæti í byrjunarliði meistaraliðs í NBA deildinni?
Frakkinn Tony Parker leiðir að sjálfsögðu Evrópu-lestina með sæti í byrjunarliði fjögurra NBA meistara. 2003, 2005, 2007 og nú 2014.
Spánverjinn Pau Gasol og Króatinn Toni Kukoc eiga tvo titla hvor með liði þar sem þeir spiluðu í byrjunarliðinu. Gasol 2009 og 2010, Kukoc 1996 og 1998. Kukoc varð einnig meistari með Bulls 1997 en kom af bekknum í öllum leikjum úrslitanna það árið.
Þjóðverjinn Dirk Nowitzki á einn titil árið 2011 þegar Dallas Mavericks sigraði stórlið Miami Heat sama ár og LeBron kom yfir til Miami. Dirk var að sjálfsögðu í byrjunarliðinu þar.
Gregg Popovich setti Frakkann Boris Diaw í byrjunarlið San Antonio Spurs í síðustu þremur leikjunum núna í 2014 úrslitunum. Diaw setti heldur betur sinn svip á leik liðsins sem eftir það snéri við blaðinu og varð óstöðvandi.
Frakkar eiga því fimm sæti í byrjunarliðum NBA meistara. Þar á eftir koma Spánverjar og Króatar með tvö sæti hvorir. Þjóðverjar reka svo lestina með eitt sæti.
Minnstu munaði að Pétur Guðmundsson kæmist í úrslitin 1986 með Los Angeles Lakers. Hann var þó skólaður af Hakeem Olajuwon og Ralph Sampson í úrslitum vestursins.
Houston tapaði svo fyrir Boston Celtics í úrslitum en margir telja 86 lið Celtics vera eitt það allra besta í sögu deildarinnar.
Ef einhverja vantar í þessa upptalningu látið mig endilega vita á Facebook eða Twitter.