Brynjar Magnús Friðriksson, miðherjinn knái úr drengja- og unglingaflokki Stjörnunnar hefur ákveðið að halda kyrru fyrir á klakanum og taka slaginn með meistaraflokki félagsins í vetur. Til stóð að Brynjar færi til Bandaríkjanna í menntaskóla en nú er orðið ljóst að hann mun halda áfram sínu körfuboltauppeldi áfram í Garðabænum næsta vetur. Frá þessu er greint á stjarnan.is.
 
 
Á heimasíðu Stjörnunnar segir einnig:
 
Framfarir Brynjars á tímabilinu hafa verið eftirtektarverðar og uppskar hann laun þeirra framfara og síns erfiðis þegar hann var valinn í lokahóp U18 ára landsliðsins sem lék á Norðurlandamótinu í Solna ásamt liðsfélaga sínum Daða Lár Jónssyni. Þar var Brynjar í byrjunarliði Íslands í fjórum af fimm leikjujm liðsins og þótti standa sig með stakri prýði.