Keflvíkingar hafa samið við hinn 19 ára gamla framherja Eystein Bjarna Ævarsson til tveggja ára. Eysteinn er uppalinn hjá Hetti á Egilsstöðum og hefur þrátt fyrir ungan aldur leikið lykilhlutverk með liðinu undanfarin þrjú ár. Eysteinn skilaði 12 stigum, 5 fráköstum og 3 stoðsendingum að meðaltali í leik í 1. deildinni í vetur, spilamennska sem varð til þess að Eysteinn var valinn úrtakshóp fyrir U20 ára landslið Íslands og loks í lokahóp eftir nokkra daga æfingar. Þá hafa Keflvíkingar einnig samið við Andrés Kristleifsson frá Egilsstöðum en hann og Eysteinn eru á meðal efnilegustu leikmanna Hattar hin síðari ár.
 
 
Andrés er 19 ára gamall og hefur leikið með uppeldisfélagi sínu Hetti allan sinn feril. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Andrés verið einn af máttarstólpum í meistaraflokki 1. deildarliðs Hattar sl. þrjú ár en í vetur var hann með 10.5 stig, 4 fráköst og 2,5 stoðsendingar á leik. Höttur spilaði í vor til úrslita gegn Fjölni um laust sæti í Domino´s deildinni en varð að lúta í grasi.
 
Á heimasíðu Keflavíkur er m.a. rætt við þá Eystein og Andrés
 
 
Myndir/ Á efri myndinni er Andrés í leik með Hetti gegn Stjörnunni en á þeirri neðri er Eysteinn Bjarni.