KR og Grindavík mættust í kvöld í þriðja leik liðanna í úrslitum Dominosdeildarinnar í DHL höllinni. 
 
 
Leikurinn hófst með kaflaskiptum fyrri hálfleik þar sem klaufalegum KR-ingum gekk illa að koma boltanum ofan í körfuna. Martin Hermannsson átti 6 af fyrstu 10 stigum KR-inga en strákarnir í teignum átt erfiðara með að koma tuðrunni ofan í hringinn. KR-ingar voru aðeins 7/22 í skotum í fyrsta hluta. Ekki var eins og tækifærin væru ekki til staðar því þeir hirtu 8 sóknarfráköst í fyrsta leikhluta og nýttu þau mjög illa. Vítaskotin voru heldur ekki að detta niður en þeir misnotuðu alls 7 vítaskot á fyrstu 10 mínútunum.
 
Það eina sem var í raun að halda Grindvíkingum inni í leiknum í fyrsta leikhluta var lélegt spil KR-inga. Grinvíkingar hittu betur en færin voru ekki eins mörg.
 
Annar hluti var þvert á móti eign KR-inga. Frábær varnarleikur sá til þess að Grindvíkingar varla fengu að sjá körfuna. Sóknarnýting Grindvíkinga var 34,4% í fyrri hálfleik, þeir skoruðu 0,76 stig per sókn og hittu aðeins 13/37 í skotum utan að velli. Annað var uppi á teningnum hjá KR sem skoraði 1,22 stig per sókn og nýtti 56,4% sókna. Þetta kristallaðist allt í troðslu Magna Hafsteins í andlitið á Ólafi Ólafs eftir að hafa stolið boltanum sjálfur.
 
Það var við því búist að Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Grindavíkur myndi gefa þeim hárþurrkuna í hálfleik og að menn kæmu brjálaðir til leiks í seinni hálfleik. Raunin var hins vegar önnur. 
 
Slíkt og annað eins andleysi frá liði sem komið er í úrslitaseríu í efstu deild í körfubolta á ekki sjást. Varnarleikur KR-inga var stórkostlegur og niðurbrotið algert hjá Grindavík.
 
KR hélt Grindavík í 23,1% sóknarnýtingu í þriðja hluta og 0,48 stigum per sókn. Gildi sem eiga helst ekki að sjást hjá liði í efstu deild – hvað þá í úrslitum. Eini leikmaður Grindavíkur sem var með vott af hjartslætti var Ómar Örn Sævarsson.
 
Sóknarleikur KR var mjög góður í leiknum með 1,11 stig per sókn og sóknarnýtingu upp á 54%. Ekki sömu sögu að segja um Grindavík eins og að fram hefur komið. 0,72 stig per sókn og 33,8% sóknarnýting. KR-ingar hirtu alls 64 fráköst í leiknum á móti 42 Grindavíkur. Vítanýting beggja liða var síður en svo til fyrirmyndar en bæði lið misnotuðu samtals 24 vítaskot, KR 46,9% og Grindavík 53,3%.
 
Grindavíkingar hafa nú að því er virðist spilað sinn allra versta leik í vetur og hvergi að fara nema upp á við núna. Pressan er öll þeirra megin núna þar sem þeir fara nú heim með þetta tap á bakinu og möguleika á að fara í sumarfrí eftir hann. Grindavík hefur nú tapað 3. leik í úrslitaseríu þriðja árið í röð eins og fram hefur komið hér. Nú er bara að hrista það af sér og mæta dýrvitlausir í þann næsta.