Það var allt undir í dag bæði fyrir Snæfell að reyna að klára þennan þriðja leik liðanna og fyrir Hauka að eiga smá von um að halda einvíginu á lífi. Ábyggilega töluvert sem fór í gegnum höfuð leikmanna í dag.
 
 
Lele Hardy byrjaði leikinn af krafti fyrir Hauka og kom þeim í 0-5. Helga Hjördís kom fyrstu stigum Snæfells á töfluna með þrist, spjaldið ofaní. Bæði lið voru greinilega mætt til að selja sig dýrt og var staðan eftir fjórar mínútur 3-7 fyrir gestina. Varnarleikurinn var settur framar öllu og stál í stál var niðurstaðan. Chynna Brown kom inn á hjá Snæfelli eftir sex mínútur í fyrsta hluta og var greinilega smátíma að finna taktinn. Haukastúlkur náðu að taka Snæfells svolítið úr þeirra leik og voru yfir 5-11. Staðan eftir fyrsta hluta var 10-12 fyrir Haukastúlkur og hörkubardagi var í gangi.
 
Alda Leif jafnaði 14-14 fyrir Snæfell og Guðrún Gróa kom þeim yfir 16-15 og sem fyrr lítið skorað og hart barist. 19-17 var staðan í tvær og hálfa mínútu og liðin hittu illa. Staðan í hálfleik var 23-25 en Lele smellti einum á lokaflautinu eftir að jafnt var 23-23.
 
Hjá Snæfelli var Hildur Björg komin með 10 stig og 4 fráköst. Guðrún Gróa var næst með 4 stig. Hildur Sigurðar var búin að taka 9 fráköst og gefa 5 stoðsendingar. Í liði Hauka var Lele Hardy komin með 12 stig og 11 fráköst. Gunnhildur Gunnarsdóttir var komin með 6 stig.
 
 
Allan tímann var þetta eins til tveggja stiga leikur þar sem liðin skiptust á forystu og að jafna leikinn. Með þristum frá Hildi Björgu og Helgu Hjördísi komust Snæfellsstúlkur í 31-29 eftir að hafa byrjað undir í hálfleik 25-29. Þá tók við ótrúlegur kafli Snæfells. Þær komust í 44-29 með þristum frá Helgu Hjördísi, Chynna Brown og flautuþrist frá Hildi Sigurðar og Helga Hjördís sem heldur betur hefur tekið framfaraþotuna bætti svo við tveimur stigum að auki og 19-0 kafli Snæfells fullkomnaður. Haukastúlkur voru furðulostnar en náðu að saxa aðeins á 44-34. Staðan eftir þriðja hluta var 46-34 fyrir Snæfell sem unnu hlutann 23-9.
 
Haukastúlkur sóttu hressilega á í upphafi fjórða fjórðungs og Íris Sverrisdóttir átti myndalegan þrist, 48-40 þegar tvær mínútur voru búnar. Hildur Sigurðardóttur kom með gríðalegan kraft í sinn leik og skoraði sex stig í röð fyrir Snæfell og Guðrún Gróa bætti svo við þrist og komust í 59-44 þegar fjórar mínútur voru eftir. Snæfellsstúlkur héldu vel á spilunum í lokin og 69-62 urðu lokatölur þegar Snæfell landaði sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli. Gríðarlegur fögnuður braust út í Stykkishólmi um leið og lokaflautið gall enda í fyrsta sinn sem Íslandsmeistaratitill kvenna kemur í Stykkishólm. Þá er Snæfell tólfta liðið til þess að verða Íslandsmeistari í kvennaflokki. 
 
Snæfell: Hildur Sigurðardóttir var valin maður leiksins með 20 stig, 13 fráköst og 9 stoðsendingar. Hildur Björg 17/10 frák. Helga Hjördís 13. Guðrún Gróa 11/10 frák. Chynna Brown 4/5 frák. Eva Margrét 2/4 frák. Alda Leif 2. Berglind Gunnarsdóttir 0. Edda Bára Árnadóttir 0. Hugrún Eva 0. Silja Katrín 0. Rebekka Rán 0.
 
Haukar: Lele Hardy 24/16 frák/5 stoðs. Gunnhildur Gunnarsdóttir 12. Margrét Rósa 9. Auður Íris 6. Íris Sverrisdóttir 6. Jóhanna Björk 3/9 frák. Lovísa Henningsdóttir 2/4 frák. Guðrún Ámundar 0. Sylvía Rún 0. Þóra Kristín 0. Dagbjört 0. Inga Rut 0.
 
 
Umfjöllun/ Símon B. Hjaltalín
Myndir/ jon@karfan.is