„Ég byrjaði svona aðeins að spá í þessu í 10. bekk að fara út, þegar maður sá að það voru krakkar að fara út sem skiptinemar og spila körfubolta. Þetta varð svo ekkert alvöru pæling fyrr en árið eftir og þá hafði ég samband við Sigga Hjörleifs sem vinnur fyrir Global Horizons hérna á Íslandi og hann var einmitt þjálfarinn minn á þeim tíma þannig það var mjög þægilegt enda er hann góður vinur Paul Hallgrimson sem á sömtökin,“ sagði KR-ingurinn Gunnar Ingi Harðarson sem í vetur hefur verið í námi við miðskólann Freedom Christion Academy í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum.
 
„Þetta eru flott samtök sem eru að verða stærri og stærri. Það skiptir nánast ekki máli hvert áhugamálið er, Global Horizons mun finna skóla sem hentar manni. Ég var svo heppinn að fá að eyða nokkrum dögum hérna úti með Paul og hann er algjör toppmaður,“ sagði Gunnar Ingi sem þurfti fljótt að venja sig við að skólastarfið ytra væri nú nokkuð frábrugðið því sem gerist hér á Íslandi.
 
„Ég lenti í flottum skóla hérna úti í Norður Karólínu, Freedom Christian Academy, sem er kristinn einkaskóli og nokkuð nýr og fjölgar nemendum töluvert á hverju ári. Freedom er með mjög flotta íþróttaaðstöðu enda koma margir nemendur í skólann bara til að geta spilað íþróttir. Skólinn er mjög góður námsskóli en erfiðasta fagið sem ég er í er einnig fag sem allur skólinn þarf að taka og er biblíutími. Á miðvikudögum er svo alltaf Chapel þar sem nánast allur skólinn kemur saman og prestur kemur og predikar. Skólinn krefst þess svo að þú mætir í kirkju á hverjum sunnudegi og getur það verið mjög erfitt að vakna. Ég held að það séu fleiri kirkjur bara í Fayetteville en á öllu Íslandi, það er nánast kirkja á hverju horni hérna. Það hefur kannski verið mesta menningarsjokkið hérna úti hvað allir eru mjög kristnir.“
 
 
 
Gott tímabil að baki
 
„Tímabilið gekk alveg rosalega vel og er ég nokkuð viss um að þetta hafi verið besta tímabil skólans til þessa. Ég komst strax inn í byrjunarliðið sem skotbakvörður og spilaði mjög mikið en maður þurfti klárlega að vinna fyrir því á æfingum og í leikjunum. Ef maður fór eitthvað að slaka á var manni kippt útaf. Ég leiddi liðið í stigaskori á tímabilinu ásamt því að hafa verið valinn í úrvalsliðið í okkar Conference-i (riðli) og úrvalslið úrslitakeppninnar í okkar riðli þar sem við töpuðum úrslitaleiknum með 1 stigi í framlengingu. Sá leikur verður alltaf eftirminnilegur en þetta var líklegast rosalegasti leikur sem ég hef spilað. Íþróttahúsið var alveg pakkað og þvílík læti allan tíman. Þeir settu buzzer til að jafna leikinn eftir venjulegan leiktíma svo við enduðum í framlengingu þar sem við töpuðum með 1 stigi eftir að hafa klúðrað 2 vítum ásamt lay-up-i af frákastinu með 2 sek eftir. Við töpuðum svo naumlega í 8 liða úrslitum í State Championship á móti Word Of God sem voru í öðru sæti í fylkinu en sá skóli er þekktastur fyrir John Wall sem spilaði þar. En samt sem áður mjög gott tímabil að baki,“ sagði Gunnar sem er hrifinn af boltanum sem leikinn er þarna úti.
 
„Ég er mjög hrifinn af boltanum hérna úti. Hann er mjög hraður enda mikið af fáránlegum íþróttamönnum hérna og maður fékk líklegast að spila við framtíðar NBA leikmenn m.a Theo Pinson og Dennis Smith Jr. Ég er líka mjög hrifinn af þriggja stiga línunni sem er mun styttri hérna en á Íslandi,“ sagði Gunnar en háskólar hafa þegar sett sig í samband við kappann.
 
„Með framtíðarplön þá er stefnan sett á að vera hérna úti á næsta ári og útskrifast, svo í háskóla. Það eru nú þegar háskólar búnir að hafa samband og hafa sýnt manni áhuga sem gefur manni enn betri ástæðu til að vera útí á næsta ári. Ég er svo á fullu að æfa og spila með AAU liði núna sem er svona travel basketball lið og erum við með hörku hóp og munum við spila í mörgum showcase-tournament-um núna restina af skólaárinu og svo langt fram á sumar. Þessi showcase-tournament eru yfirleitt full af háskólaþjálförum og spilað er í mörgum fylkjum þannig það er mikið ferðalag og spennandi tímar framundan.“