Þjálfarinn Erik Olson og leikmaðurinn Collin Pryor hafa báðir framlengt samninga sína við FSu fyrir næstu leiktíð. Frá þessu er greint á www.fsukarfa.is
 
 
Á heimasíðu FSu segir:
 
Erik Olson hefur verið tvö tímabil hjá FSu og er mikil ánægja innan félagsins með hans störf. Hann hefur einnig yfirumsjón með akademíustarfi félagsins. Erik er gríðarlega metnaðarfullur þjálfari sem leggur mikla vinnu í verkefnið og hefur hann vakið athygli víða fyrir sitt framlag til liðsins. Hann mun í apríl fara til Þýskalands þar sem hann mun starfa sem aðstoðarþjálfari u-18 ára landsliðs Bandaríkjanna á nokkurs konar heimsmeistaramóti. Það er mikil viðurkenning fyrir Erik og hans starf og endurspeglar metnað hans og árangur í starfi. Hann hefur mikil og sterk sambönd í háskólaboltanum í Bandaríkjunum og mun það halda áfram að nýtast leikmönnum og nemendum innan FSu.
 
Collin var að klára sitt fyrsta tímabil sem atvinnumaður og var hans frammistaða langt fram úr björtustu vonum, en hann var valinn til FSu sem varnarmaður en sannaði sig heldur betur sóknarlega líka. Hann endaði tímabilið með 28,6 stig að meðaltali, 14,2 fráköst, 3,8 stoðsendingar og 38,3 framlagsstig að meðaltali. Bæði hann og forsvarsmenn félagsins voru ánægðir með samstarfið og því mikil ánægja að hann skuli koma aftur en hann heldur til Bandaríkjanna á morgun. Hann mun koma aftur í lok sumars og vinna við körfuboltabúðir FSu sem verða í lok júlí.