Grindavík tók á móti Njarðvík í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Domino’s deildar karla klukkan 18:00 í kvöld. Leikurinn var færður frá hefðbundnum tíma (19:15) um klst. og korter vegna anna Grindvíkinga í kvöld. Vel var mætt á leikinn og stemningin hafin báðum megin í stúkunni áður en leikurinn hafðist.
 
 
Byrjunarlið Grindavíkur: Lewis Clinch Jr., Jóhann Ólafsson, Ólafur Ólafsson, Ómar Sævarsson og Sigurður Þorsteinsson
 
Byrjunarlið Njarðvíkur: Elvar Friðriksson, Logi Gunnarsson, Maciej Baginski, Ólafur Jónsson og Tracy Smith
 
Leikurinn var harður til að byrja með og fyrsta villan dæmd þegar rúmar fimm mínútur voru liðnar af leiknum og hart barist eins og gengur og gerist í úrslitakeppninni. Samt sem áður var nokkuð vel skorað í leikhlutanum og staðan eftir fyrstu lotu 26-20 eftir að Grindvíkingar splæstu í 8-2 áhlaup á lokakafla leikhlutans. Framlag beggja liða kom úr mörgum áttum og allir byrjunarliðsmenn leiksins komust á blað í fyrsta leikhluta nema einn.
 
Það var minna um góða drætti sóknarlega í öðrum fjórðungnum enda gríðarlega öflug vörn spiluð af báðum liðum. Til að mynda “hedge”-uðu Grindvíkingar bakverði Njarðvíkur út á miðju liggur við þegar þeir reyndu að spila vagg og veltu eða “pick and roll.” Grindvíkingar skoruðu einungis 6 körfur utan af velli í öðrum leikhluta og Njarðvík 5 og bæði lið með 50% vítanýtingu í leikhlutanum. Hálfleikstölur 41-34 heimamönnum í Grindavík í vil.
 
Grindvíkingar komust í 13 stiga forystu, 51-38 snemma í þriðja leikhluta og hver annar en Ólafur nokkur Ólafsson búinn að fylla stemningsmælinn í Grindavíkurstúkunni, en hann setti erfitt stökkskot og þrist á innan við 30 sekúndum á þessum tímapunkti. Hjörtur Hrafn Einarsson hjálpaði til við að rífa Njarðvíkingana upp aftur og setti góðan þrist og svo sniðskot og fékk víti að auki sem hann að vísu klikkaði úr. Njarðvíkingarnir enduðu þriðja fjórðung á 5-14 áhlaupi og leikurinn galopinn á ný eftir 30 mínútna leik, 58-54.
 
Varnarleikur Njarðvíkinga hertist með hverri mínútunni sem leið og þegar þeir skiptu í svæðisvörn virtist vörnin loka á sókn Grindvíkinga. Þeir komust í forystu snemma í fjórða leikhluta og stemningin óborganleg í gestastúkunni. Logi Gunnarsson setti síðan RISAþrist af dripplinu með mann í nefinu sem kom grænum í 65-71 forystu sú forysta var sú stærsta þeirra Njarðvíkinga fram að þessu. Ólafur Ólafsson minnkaði leikinn aftur í fjögur stig en Hjörtur Hrafn Einarsson kom með góða körfu og lagði boltann síðan fyrir Tracy Smith í næstu sókn sem leiddi til auðvelds sniðskots og 8 stiga forystu Njarðvíkur þegar um 2 mínútur voru eftir. Upp úr þessu breyttist ekki mikið, Njarðvíkingar sigldu þessu örugglega í höfn síðustu sekúndurnar.
 
Það má með sanni segja að Hjörtur Einarsson hafi verið “X-factorinn” í liði Njarðvíkur að þessu sinni en þeir eru með stráka sem geta hitnað upp í flýti. Hjörtur var með 2 stig í hálfleik en setti fjórtán í þeim síðari og gaf þessa fyrrnefndu stoðsendingu á Tracy Smith sem nokkurn veginn ísaði leikinn.
 
Njarðvík komnir í 1-0 fyrstu en serían er upp í þrjá sigra og næsti leikur verður á mánudaginn kemur klukkan 19:15 ef allt er eðlilegt og enginn á afmæli.
 
Tracy Smith skoraði 19 stig og tók 18 fráköst fyrir Njarðvík og Elvar Már skoraði 18, gaf 10 stoðsendingar og tók 7 fráköst. Þá var Hjörtur Hrafn sem fyrr segir með 16 stig og Logi Gunnars 13 og 6 stoðsendingar.
 
Hjá Grindavík var Ólafur Ólafsson með 18 stig og 7 fráköst, Jóhann Árni gerði 16 stig, Ómar Sævars skoraði 14 stig og tók 14 fráköst og Lewis Clinch Jr. bætti við 10 stigum, 11 stoðsendingum og 5 fráköstum.
 
 
Umfjöllun/ ÁÁ
Mynd/ JBÓ