Það voru Connecticut Huskies sem höfðu betur í úrslitaleiknum í NCAA deildinni í gærkvöldi gegn Kentucky Wildcats, 60-54. Leikurinn er einn af stærri íþróttaviðburðum ársins í Bandaríkjunum og sem dæmi um það má nefna höllina sem leikurinn fór fram í en hann tekur hátt í 80 þúsund manns sem er margfaldur fjöldi áhorfenda á hefðbundnum NBA leik. Besti leikmaðurinn eða Most outstanding player var valinn Shabazz Napier sem þykir bera af í liði meistaranna, ekki bara í tölfræðinni heldur einnig sem leiðtogi í liðinu. Napier skoraði 22 stig, tók 6 fráköst og gaf þrjár stoðsendingar í leiknum í gær.  
 
Napier er nú kominn í góðan hóp leikmanna sem hafa leitt UConn liðið áfram en seinast vann liðið NCAA titilinn með Kemba Walker í broddi fylkingar árið 2011. Þá var Napier á bekknum og beið eftir tækifærinu sem kom í gær. Ray Allen, Richard Hamilton og Ben Gordon hafa einnig allir spilað fyrir UConn á sínum tíma.