Baráttuglaðir Grindvíkingar völtuðu yfir Njarðvík í Ljónagryfjunni í kvöld og jöfnuðu þar með undanúrslitaviðureign liðanna í Domino´s deild karla. Lokatölur 73-95 þar sem Lewis, Sigurður og Ómar Sævarsson fóru fyrir gestunum en Njarðvíkingar að sama skapi víðsfjarri sínu besta.
 
 
Baráttan í gestunum var einfaldlega miklu meiri og betri, Ómar og Sigurður drottnuðu í teignum og fyrir utan áttu Njarðvíkingar fá svör gegn Clinch. Sannkallaður meistarabragur á Grindavík þetta sinnið.
 
Íslands- og bikarmeistarar Grindavíkur mættu með þéttan varnarleik í Ljónagryfjuna og hann leit jafnvel enn betur út þegar í ljós kom að Njarðvíkingar höfðu engan áhuga á því að sækja að körfunni heldur hangsa fyrir utan og setja í loftið misgáfuleg þriggja stiga skot. Gestirnir úr Röstinni héldu heimamönnum stigalausum fyrstu þrjár og hálfa mínútu leiksins. Clinch skoraði nánast að vild og það sem ekki fór niður hjá honum það hirti Ómar Sævarsson því heimamenn höfðu litla lyst á því að stíga út. Grindvíkingar leiddu 13-25 eftir fyrsta leikhluta með þá Clinch og Ómar sjóðheita og það skein skært á vígtennur meistaranna.
 
Maciej Baginski opnaði annan leikhluta fyrir Njarðvíkinga með þrist og snemma var ljóst að heimamenn höfðu gyrt í brók. Logi Gunnarsson splæsti í annan þrist skömmu síðar og minnkaði muninn í 21-29. Lewis Clinch slakaði ekkert á klónni, kappinn var einfaldlega framúskarandi í fyrri hálfleik, skoraði 25 stig á 18 leikmínútum og Grindvíkingar leiddu 36-47 í hálfleik.
 
Lewis Clinch var með 25 stig í hálfleik, var 5-5 í þristum en Njarðvíkingar voru 2-13 í þristum en þeir eru ófeimnir við að setja þá á loft. Ómar Sævarsson var dottinn í tvennuna eftir 20 mínútur, 10 stig og 10 fráköst en Ómar hefur leikið frábærlega síðustu misseri.
 
 
Í upphafi þriðja leikhluta náði Elvar Már að koma muninum niður í 10 stig með þrist fyrir Njarðvíkinga, 47-57, en Grindvíkingar voru áfram mun hungraðri aðilinn. Jafnvel grunnatriði eins og að stíga út í frákastabaráttunni virtust Njarðvíkingum horfin og ríkjandi meistarar síðustu tveggja ára hafna ekki svoleiðis hlaðborðum og höfðu tekið helmingi fleiri fráköst en heimamenn eftir 30 mínútna leik!
 
Ólafur Ólafsson barði sér leið í gegnum Njarðvíkurvörnina og skoraði, fékk villu að auki og setti vítið, breytti stöðunni í 49-67 og Lewis Clinch lokaði þriðja leikhluta með þrist þegar fimm sekúndur voru eftir og gestirnir leiddu 55-72 fyrir lokaleikhlutann. Njarðvíkurvörnin vart til eftirbreytni í úrslitakeppni þar sem Grindvíkingar höfðu gert 22 stig eða meira alla þrjá fyrstu leikhlutana.
 
Öflugur lokasprettur Grindavíkur í þriðja leikhluta beygði heimamenn en það var upphafsrispa Grindvíkinga í fjórða sem braut þá endanlega. Eftir tveggja mínútna leik í fjórða leikhluta klifraði munurinn upp í 20 stig. Í einu af mörgum fátum heimamanna gerðust þeir næstum því brotlegir við 8 sekúndna regluna og grýttu boltanum í hendur Grindvíkinga sem svöruðu með hraðaupphlaupi á íslenska vísu…því lauk með þrist frá Daníel Guðna Guðmundssyni og staðan 63-84 þegar sex mínútur lifðu leiks. Hér með var þetta búið. Sannfærandi sigur gestanna reyndist svo 73-95.
 
Lewis Clinch Jr. splæsti í 34 stig en þeir Ómar Sævarsson, 18 stig og 19 fráköst og Sigurður Gunnar Þorsteinsson, 14 stig og 18 fráköst, voru bestu menn vallarins. Jóhann Árni og Ólafur héldu taktinum föstum í varnarleiknum og þetta gekk bara nokkuð smurt hjá Grindvíkingum. Njarðvíkingar svekkja sig eflaust yfir því að hafa átt sinn versta þriggja stiga leik í vetur, settu aðeins niður þrjá þrista, það minnsta á öllu tímabilinu. Þeir voru einnig gersigraðir í frákastabaráttunni og þurfa að fjarlægjast þennan leik sem fyrst fyrir þriðju viðureign liðann í Röstinni á föstudag.
 
 
Myndir og umfjöllun/ jon@karfan.is – nonni@karfan.is