„Ég er ekkert hrokafullur eða neitt svoleiðis en við vorum einfaldlega með besta liðið í vetur,“ sagði Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfellskvenna, vígreifur að sjálfsögðu eftir að hafa gert klúbbinn að Íslandsmeisturum í kvöld. Ingi Þór á sérstakan sess í körfuboltasögu Hólmara en hann hefur nú landað Íslandsmeistaratitlum fyrir bæði karla- og kvennalið félagsins. Hann kvaðst ótrúlega stoltur af því að hafa fengið að vera þátttakandi í þessum miklu sigrum félagsins.