Úrslit Domino´s deildar karla hefjast í DHL-Höllinni annað kvöld þegar deildarmeistarar KR taka á móti Íslands- og bikarmeisturum Grindavíkur. Leikurinn hefst kl. 19:15 annað kvöld og verður öll úrslitaserían í beinni útsendingu hjá Stöð 2 Sport. KR hefur heimaleikjaréttinn sem deildarmeistari.
 
 
Hér að neðan ætlum við aðeins að reifa mál KR og Grindavíkur.
 
Byrjunarliðin: KR / Grindavík
 
Pavel Ermolinskij/Lewis Clinch Jr.
Martin Hermannsson/Jóhann Árni Ólafsson
Darri Hilmarsson/Ólafur Ólafsson
Helgi Magnússon/Ómar Örn Sævarsson
Demond Watt Jr./Sigurður Gunnar Þorsteinsson
 
Fyrstu menn inn hjá KR: Brynjar Þór Björnsson, Ingvaldur Magni Hafsteinsson
Fyrstu menn inn hjá Grindavík: Jón Axel Guðmundsson, Daníel Guðni Guðmundsson
 
– Við erum ekki endilega að segja að „match-up-in“ verði svona eins og liðin að ofan en við teljum okkur nokkuð vissa um að byrjunarliðin verði svona skipuð. Sem fyrr er það Brynjar Þór Björnsson sem gæti verið að rúlla út Martin eða Darra í byrjunarliðinu en við teljum líklegast að Finnur Freyr og Sverrir Þór byrji þetta svona eins og við sýnum hér að ofan.
 
– Í seríunni gegn Stjörnunni lagði KR upp úr því að þjarma að Justin Shouse og var hann oftar en ekki dekkaður upp allan völlinn. Mun KR beita sömu aðferð á Clinch og freista þess að reyna að slá á þessa ofurleiki hjá kappanum? Að sama skapi voru Grindvíkingar með Elvar Má Friðriksson í ekki ósvipaðri meðferð. Þetta eru leikstjórnendapressur sem við höfum ekki trú á að muni sjást í úrslitaseríunni. Þegar Grindavík lagði KR í DHL-Höllinni í janúar átti Clinch einn af þessum „Clinch-Show“ leikjum og fyrir vikið mátti KR þola sitt fyrsta deildartap. „The Clinch Show“ þarf að vera opið öll úrslitin til að Grindavík klári seríuna, það er staðreynd.
 
– Eflaust hafa allir velt þessu fyrir sér: „Getur Grindavík unnið þetta án Þorleifs?“ – Mjög svo lögmæt spurning en þarf Þorleif vart að kynna fyrir fólki og hvað hann færir Grindavíkurliðinu. Íslandsmeistarar síðustu tveggja ára eru þó komnir þetta langt og það án fyrirliðans síns en óneitanlega hefði það verið þúsundfalt betra að hafa hann með í seríunni.
 
– Er það áhyggjuefni fyrir KR að hafa aðeins í síðustu 10 leikjum sínum einu sinni mætt topp 5 liði úr deildinni?
 
– Oddaleikur Grindvíkinga gegn Njarðvík var ótrúlegur, vafalítið besti leikur Grindavíkurliðsins í ansi langan tíma. Ef meistarar síðustu tveggja ára ná upp svona takti í seríunni gegn KR verða röndóttir í stórkostlegum vandræðum.
 
 
– Hvað aldurssamsetningu liðanna og reynslu varðar þá eru liðin mjög sambærileg. KR hefur það vitaskuld framyfir Grindavík að hafa innan sinna raða þrjá landsliðsmenn í Helga, Pavel og Brynjari sem hafa marga fjöruna sopið hérlendis sem og erlendis og mun reynsla þeirra vega þungt. Grindvíkingar eiga einn með svipaða reynslu í Jóhanni Árna Ólafssyni en við tippum eldsnöggt á að það verði Helgi Magg og Jói Ólafs sem muni eiga suddalega match-up rimmu og að fyrir vikið verði Ómar Sævars settur á Darra.
 
– Í seríunni hjá Grindavík gegn Njarðvík voru stóru strákarnir Sigurður og Ómar að baka Njarðvíkingum töluverð vandræði. Ungur hópur Njarðvíkinga var nokkuð gjarn á að fara í frákast fyrst og hefðu kannski í mörgum tilfellum átt að stíga betur út, það eru reginskyssur sem við teljum ólíklegra að KR muni gera í jafn miklu mæli en Sigurður og Ómar fara á eftir öllum lausum boltum á báðum endum vallarins. Grindavík er það lið sem hefur frákastað best á tímabilinu með 45,32 fráköst á leik, KR er í 8. sæti þess lista með 40,55 fráköst. KR er mögulega það lið sem tekið hefur stærstu fráköst tímabilsins, leikur 1 og 4 gegn Stjörnunni, frákastavinna á sóknarendanum sem var að klára dæmin þar fyrir KR. Frákastabaráttan verður suddaleg í þessu einvígi og sem fyrr þegar kemur að körfubolta, eitthvað sem mun eiga stóran þátt í því að skera úr um hver fer brosandi inn í sumarið.
 
Tækifæri: Með sitt byrjunarlið ætti Grindavík að reyna að koma boltanum á þann mann sem Martin er að dekka. Martin er frábær leikmaður, sterkur á báðum endum vallarins en ef þú setur hann undir körfuna með Jóhanni Árna eða Ólafi Ólafssyni þá komast þeir í ansi myndarlega stöðu til að splæsa í tvö stig enda eiga þeir nokkur kíló á Martin. Að sama skapi þurfa Ólafur og Jóhann að hafa gætur á Martin og líklegast bætist þar Jón Axel við í hópinn en Martin er sá leikmaður KR sem sækir hraðast, með sterkasta fyrsta skrefið og flest alhliða vopn í sóknarbúri sínu af leikmönnum KR…og þá algerlega að öðrum ólöstuðum en pakki hans er fjölbreyttari en annarra sóknarmanna KR-inga. Eins og öllum öðrum liðum í deildinni mun Helgi Magg verða Grindvíkingum erfiður, snjall leikmaður sem er fljótur að sjá veiku bletti andstæðinganna og þjarmar þar að mönnum.
 
– Sjötti og sjöundi maður KR þétta pakkann aðeins betur en Grindvíkingar gera. Það er ekkert leyndarmál að Daníel Guðni hefur verið að glíma við meiðsli í röðum Grindavíkur en virðist í fantaformi um þessar mundir en Jón Axel Guðmundsson er að takast á við sitt stærsta hlutverk á ferlinum sem 18 ára leikmaður í úrslitaseríu. Inn nr. 6 og 7 hjá KR koma Brynjar Þór og Ingvaldur Magni. Sameiginleg reynsla þeirra er ansi veglegri heldur en hjá Jóni Axel og Daníel, í seríu mun það vafalítið sýna sig. Grindvíkingar eru þó ekki að stóla á 10-10 leiki hjá Danna og Jóni kvöld eftir kvöld en ef þeir skila hlutverkum sínum í samanburði við öfluga frammistöðu þeirra í oddaleiknum gegn Njarðvík þá þurfa Grindvíkingar ekkert að hafa neinar áhyggjur.
 
KR-Grindavík
21. apríl kl. 19:15
Leikur 1 – úrslit Domino´s deild karla
DHL-Höllin