Það var vel mætt í DHL-höllina í kvöld er Kef-banarnir úr Garðabænum mættu heimamönnum í fyrsta leik undanúrslitanna. Stjörnumenn höfðu sannarlega ástæðu til að mæta með von í hjarta en andstæðingarnir, eins og allir vita, afskaplega vel mannaðir – meira að segja á kústinum!
 
 
Fulltrúi DHL mætti tímanlega að sjálfsögðu með leikboltann í þar til gerðum kassa og leikar gátu hafist. Stjörnumenn sýndu strax að þeir voru ekki mættir bara til að horfa á og áttu í fullu tré við KR-inga. Bæði lið sýndu skemmtileg tilþrif og Junior Hairston blokkaði skot heimamanna ítrekað en Demond lækkaði í honum rostann að bragði með því að troða hressilega yfir hann og fékk vítaskot að auki! Með flottum leik Meistara Shouse og Fannars fyrirliða héldu gestirnir í við heimamenn og staðan 24-23 eftir fyrsta fjórðung.
 
Svipaða sögu var að segja í öðrum leikhluta. KR-ingar héldu lengst af nokkurra stiga forystu þar sem Helgi fór mikinn en Shouse og Jón Sverris sáu til þess að gestirnir voru aldrei langt undan. Heldur hægðist á stigaskori í þessum leikhluta en varnir beggja liða gerðu sóknarmönnum þeirra lífið leitt. Staðan 38-37 í leikhléi.
 
Stjörnumenn urðu fyrir því óláni að hinn ungi og öflugi Dagur Kár Jónsson meiddist í fyrri hálfleik og fyllti nafni hans Sigurður í skarðið. Hann mætti alveg óhræddur og Stjörnumenn spiluðu glimrandi vel allan leikhlutann. Góður varnarleikur gestanna fékk KR-vélina til að hiksta allverulega og eftir flottan þrist frá Sigurði Degi komust gestirnir í 40-48. Gestirnir héldu frumkvæðinu út leikhlutann og voru með 51-60 forskot að honum loknum.
 
KR-ingar mættu ákveðnir til leiks í lokaleikhlutann og spiluðu agggressíva vörn sem tók Stjörnumenn úr jafnvægi. Níu stiga forskot gestanna hvarf eins og dögg fyrir sólu og KR-ingar komu sér í 66-65 forystu um miðjan leikhlutann. Liðin skiptust þá á nokkrum stórum körfum og munurinn enn eitt stig, 74-73 er ein og hálf mínúta lifði leiks. Mínútu síðar setti Shouse tvö víti og kom gestunum yfir aftur í 76-77 og vægast sagt heitt í húsinu, enginn hafði eirð í sér til að sitja á rassinum lengur! Martin fékk svo dæmda á sig ruðningsvillu í sókn heimamanna en Shouse fiskaði hana af einstakri snilld. 17 sekúndum fyrir leikslok setti Junior Hairston tvö víti og staðan 76-79. KR-ingar freistuðu þess að jafna með þristi en ofan í vildi boltinn ekki. Frákastið var hins vegar heimamanna og örfáum sekúndum fyrir leikslok barst boltinn á Helga Má og negldi hann þristinum eins og nákvæmlega ekkert væri eðlilegra! Sigurður Dagur reyndi örvæntingarfullt skot í blálokin sem ekki vildi niður og framlenging staðreynd.
 
Hræðilegt áfall fyrir gestina og til að bæta gráu ofan á svart höfðu stóru mennirnir þeirra tínst útaf í fjórða leikhluta með 5 villur – Fannar, Marvin og Jón allir á tréverkinu. Junior Hairston byrjaði reyndar framlenginguna með tveimur vítum en Helgi skoraði þá þrjár körfur í röð enda stútfullur af sjálfstrausti eftir þristinn stóra. Þrátt fyrir góðan þrist frá Shouse og flotta körfu frá litla Marv dugði það ekki til og KR-ingar mörðu sigur 94-91.
 
Stórkostlegur leikur að baki. Þvílík spenna og þvílík fegurð! Allir leikmenn eiga hrós skilið fyrir að bjóða okkur upp á þetta og alger synd að annað liðið þyrfti að sætta sig við tap. Ef við drögum þó út helstu menn er ljóst að KR-megin var Helgi Már að spila eins og erkiengill, skilaði 27 stigum, með frábæra nýtingu og tók 7 fráköst. Hjá Stjörnumönnum var Hairston stigahæstur með 24 stig og tók 14 fráköst og Meistari Shouse skilaði 18 stigum og gaf 7 stoðsendingar. Fannar fyrirliði og Sigurður Dagur eiga einnig hrós skilið og skiluðu miklu til liðsins.
 
 
Helgi Már Magnússon, KR:
 
Helgi, þið mættuð nokkuð flatir í seinni hálfleikinn og voruð í talsverðu basli á báðum endum vallarins, hvað breyttist í 4. leikhluta?
Við vorum aðeins of stífir og hægir og vorum bara að labba upp með boltann. Við vorum líka að þröngva eitthvað 1 à 1 dót í staðinn fyrir að taka það sem við fáum í flæði leiksins. Þegar við byrjuðum svo að gera það undir lokin og keyrðum aðeins upp tempóið þá gekk þetta mun betur. Vörnin var hins vegar ekki nógu góð hérna i kvöld, fáum á okkur 91 stig sem er allt of mikið en við unnum og það er það sem þetta snýst um!
 
Teitur Örlygsson þjálfari Stjörnunnar:
 
Hvernig lagður þú upp leikinn á móti þessu ógnarsterka KR-liði?
Bara nákvæmlega eins og við vorum að gera á móti Keflavík, þetta er bara mitt system, við erum búnir að spila þetta í nokkuð mörg ár þannig það er ekki neitt að koma á óvart hjá okkur.
 
Hvað var að ganga upp hjá ykkur meira og minna allan leikinn sem gerir það að verkum að þið eigið í fullu tré við KR-liðið?
Ég veit það ekki alveg, við vorum á löngum köflum yfir á móti þeim í hinum leikjunum [deildarleikjunum] og vorum óheppnir að vinna þá ekki og við vorum klaufar að vinna ekki þennan. Þeir eru náttúrulega með ótrúlega flott lið og það er rosa hátt IQ í liðinu þeirra, hjá öllum fimm sem eru inn á hverju sinni og svo eru þeir líka með sterka stráka á bekknum. Við megum samt ekki við svona miklum villuvandræðum og missa síðan byrjunarliðsmann í meiðsli, það er kannski aðeins of stór biti fyrir okkur – en við höfum nokkra daga.
 
Það er ekki komin nein uppgjöf í ykkur er það?
Nei nei, alls ekki! Við vorum klaufar að vinna þennan leik ekki í venjulegum leiktíma, það hefði verið voðalega þægilegt að labba út hérna með 1-0 forskot en nú erum við 1-0 undir og við verðum bara að nýta okkar heimavöll núna.
 
 
Umfjöllun: Kári Viðarsson
Mynd: Tomasz Kolodzijeski