Þegar árið 2014 gekk í garð hrukku Grindvíkingar í gang. Deildarkeppnin hófst á nýjan leik og Grindvíkingar byrjuðu á því að vinna sigur á toppliði KR! Þeir lokuðu deildarkeppninni eftir jól með 10-1 spretti þar sem eina tapið þeirra var háspennuslagur gegn ÍR 30. janúar. Liðið er nú 4-2 í úrslitakeppninni og því 14-3 á árinu 2014 og með bikartitil í farteskinu. Bikartitil sem þeir lönduðu eftir sigur gegn ÍR.
 
 
Eftir sannfærandi sigur Grindvíkinga í Ljónagryfjunni í gær var ekki annað hægt en að kíkja aðeins á tölurnar hjá Ómari Sævars. Vinnslan á kappanum hefur verið hreinasta afbragð og tölurnar heldur betur bólgnað út upp á síðkastið.
 
Í þremur leikjum í október bauð Ómar upp á 8,7 í meðalframlagi. Í nóvember rauk þetta upp í 15,0 en dalaði aftur í desember niður í 6,0. Líður nú að jólum og áramótum og virðist kallinn hafa komið endurnærður inn í nýja árið.
 
Janúar hefst með látum, 19,8 í meðalframlag og 19,0 í febrúar. Meðlframlagið lækkaði lítið eitt í mars niður í 17,3 en í apríl er það komið upp í 29,5 í tveimur leikjum! Ómari finnst greinilega hrikalega gaman að spila á móti Njarðvíkingum því hans hæsta meðalframlag í leikjum gegn liðum í deildinni er á móti Njarðvík eða 24,3.
 
Ómar hefur því tekið hamskiptum á leiktíðinni og bauð t.d. upp á 18-19 tvennu í Ljónagryfjunni í gær. Það heitir víst tröllatvenna og með þessu áframhaldi á þeim bara eftir að fjölga.
 
Myndir/ nonni@karfan.is – Ómar Örn Sævarsson, heldur hann áfram að bæta við sig snúning?