Grindvíkingar sigruðu nokkuð verðskuldað í kvöld afar dauft Njarðvíkurlið í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Dominosdeildarinnar.  Þar með leiða Bikar og Íslandsmeisararnir einvígið 2-1 og þurfa aðeins einn sigur í viðbót til að loka þessari seríu og tryggja sig í úrslita einvígið.  Grindvíkingar leiddu með 8 stigum í hálfleik. 
 Sú vísa er aldrei of oft kveðin að sókn vinni leiki en að vörn vinni titla.  Þó það hafi svo sem ekki verið neinn meistarabragur á þeim Grindvíkingum í kvöld þá var vörn þeirra föst fyrir og matreidd að hætti Sverris Þórs Sverrissonar þjálfara þeirra gulu og minnti óneytanlega á þegar best lá á honum inná vellinum hérna í gamla daga. Ekki nóg með það að leikmenn Grindvíkingar væru á fullu í varnarleiknum allan tímann og gerðu það bara nokkuð vel þá var Sverrir grimmur á hliðarlínunni og hélt þeim við efnið.  Mikil pressa á Elvar Már Friðriksson strax efst á vellinum þannig að hann þurfti alltaf að hafa mikið fyrir því að bæði ná í boltann og koma honum upp völlinn. Þessi meðferð hjá Grindvíkingum virtist taka mikið á Elvar sem haltraði útaf um miðbik þriðja leikhluta með krampa í kálfa, en hann snéri þó aftur til leiks. 
 
En það var einmitt þessi varnarleikur sem var munurinn á liðunum í kvöld. Það já og sú staðreynd að Grindvíkingar voru að spila töluvert betri körfuknattleik en Njarðvíkingar. Þeir spiluðu sem lið sem skilaði þeim hvað eftir annað galopið sniðskot eða þrist. Boltinn gekk hratt og Njarðvíkingar snérust eins og hauslausir kjúklingar og vissu sjaldnast hvar boltinn var.  Jóhann Árni Ólafsson reyndist sínum uppeldisklúbb afar erfiður þetta kvöldið. Kappinn hlýtur nafnbótina “Maður leiksins að þessu sinni” en hann skoraði 26 stig og spilaði fanta góða vörn.  Lewis Clinch sem kláraði Njarðvíkinga í öðrum leik liðanna í Njarðvík tók svo sína rispu en í þessari leikmanna yfirferð má alls ekki gleyma að nefna tvö menn. Í fjarveru Þorleifs Ólafssonar hefur það komið í hlut Daníel Guðna Guðmundssonar og Jón Axel Guðmundssonar að fylla þau fótsport sem Þorleifur skildi eftir.  Í gær gerðu þeir það nokkuð vel í sameiningu og ekki dónalegt að fá svona framlag af bekknum. 
 
Njarðvíkingar þurfa að vera fljótir að jafna sig á þessum úrslitum því næsti leikur er fyrir handan hornið. Einhvern vegin finnst manni vanta alla leikgleði í þá grænu. Þeir mega ekki gleyma því að þeir eru undirhundar í þessu einvígi og pressan ætti því ekki að vera á þeim. En þeir virðast hinsvegar spila boltann líkt og veröldin sé á herðum þeim.  Nú erum við ekki að tala um að fara neðst niður í ungmennafélags andann og hugsa að það er gaman að vera með, en bara svona njóta þess að vera komnir í undanúrslit og spila líkt og þeim finnist gaman að leiknum. Í kvöld virkuðu Njarðvíkingar ragir framan af og það sýndi sig best í lay-up skotum þeirra þegar þeir skotstíll þeirra breytist og þeir forðuðust alla snertingu við vörnina þegar hún kom aðsvífandi. Það hjálpaði kannski ekki heldur þegar erlendur leikmaður þeirra Tracy Smith Jr. virðist vera algerlega áhugalaus á verkefninu en í kvöld væri óhætt að skrá hann fjarverandi. Jú hugsanlega hefði verið hægt að koma boltanum oftar á hann, en kappinn þarf þá að vera snöggur að koma boltanum aftur út um leið og tví-dekkunin er mætt (og hún mætir ALLTAF) 
 
Ef dæmt sé af leik kvöldsins og þeirri staðreynd að Grindvíkingar hafa ekki tapað í allan vetur í Ljónagryfjunni þá myndu kannski flestir setja sinn pening á meistarana. En alltaf verður eitthvað fyrst og í næsta leik er síðasti séns fyrir Njarðvíkinga að taka sigur á heimavelli gegn Grindavík.