„Hann er nýfermdur“ – þetta hefur oftar en ekki verið viðkvæðið í sjónvarpslýsingum þegar Daníel Guðni Guðmundsson á í hlut. Í hinum stafræna heimi hefur hann nú fengið viðurnefnið „Babyface Assassin“ þar sem margir virðast ekki átta sig á því að þessi dagfarsprúði leikmaður Grindavíkur með barnsandlitið er í raun 28 ára gamall háskólagenginn fjölskyldufaðir.
 
Sá algengi misskilningur eltir Daníel að jafnan er hann settur í unglambaflokk leikmanna. Þess má t.d. geta að Daníel sem í síðustu seríu lék gegn leikmönnum í Njarðvík eins og Maciej Baginski gerði Baginski og félaga í Njarðvík að Íslandsmeisturum í yngri flokkum. Daníel var þá þjálfari liðsins.
 
„Ég held að þetta hafi bara alltaf verið svona, reyndar ágerðist þetta þegar ég var í Stjörnunni, þá um 25 ára gamall með ágætis hlutverk í byrjunarliði Stjörnunnar,“ sagði Daníel en þá lék Stjarnan til úrslita gegn KR og hafði Daníel m.a. það hlutverk að reyna að hægja á Marcus „The Bullet“ Walker.
 
„Samkvæmt mörgum er ég alltaf nýfermdur og í dag halda margir að ég sé t.d. jafn gamall og Jón Axel en ég kippi mér ekkert upp við þetta lengur,“ sagði Daníel. Teitur Örlygsson fyrrum þjálfari Daníels í Stjörnunni bauð m.a. upp á þetta Tíst í gærkvöldi og hafði vísast einstaklega gaman af:
 
 
 
Daníel var með sterka innkomu í gær, splæsti m.a. í tvo þungavigtar þrista fyrir Grindvíkinga með viðkvæðinu: „Ungu strákarnir eru að skila sínu.“
Hans mektarfrú og barnsmóðir er vísast ánægð með að eiga svona „ungan“ mann en þegar körfuboltaferlinum lýkur hjá Daníel Guðna munu eflaust fjöldamargir hrista hausinn og segja: „Hann er allt of ungur til að hætta.“