Tímabilið 1975-1976 varð Þór Akureyri Íslandsmeistari í efstu deild kvenna í körfuknattleik. Allar götur síðan þá hefur titillinn skotið rótum á suð-vesturhorni landsins. Á sunnudagskvöld varð þar breyting á. Snæfellskonur kölluðu titilinn til sín alla leið vestur í Hólminn og því í fyrsta sinn sem Íslandsmeistaratitillinn leggur leið sína um Ártúnsbrekkuna og út af suð-vesturhorninum í heil 38 ár!
 
 
Eins og áður hefur komið fram var þetta í fyrsta sinn sem Snæfellskonur verða Íslandsmeistarar og það gerðu þær með 3-0 sigri á Haukum í úrslitaeinvíginu. Hildur Sigurðardóttir, sjóliðsforinginn í Stykkishólmi, var eftir mót verðskuldað valin besti leikmaður úrslitakeppninnar. Vissulega voru fleiri til kallaðir enda má ekki gleyma t.d. framlagi á borð við það sem Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir lagði af mörkum en hún fékk það vandasama verkefni að hafa gætur á hinni mögnuðu Lele Hardy.
 
Síðan körfuknattleiksdeild Snæfells tók þá ákvörðun að ráða Inga Þór Steinþórsson í þjálfarastól hafa bæði karla- og kvennalið félagsins orðið Íslandsmeistarar. Þið látið ykkur ekki bregða ef styttu af kallinum yrði komið haganlega fyrir utan íþróttahúsið, við á Karfan.is leggjum til að það verði engin brjóstmynd heldur fullvaxinn bronsgripur þar sem þjálfarinn er að taka hinn margfræga „þyrludans.“
 
Hér að neðan látum við svo fylgja smá flugeldasýningu sem heimamenn buðu uppá í tilefni af árangri kvennaliðs Snæfells: