Spennan var í algleymingi í Fjósinu í Borgarnesi í kvöld þegar Skallagrímsmenn og Valsmenn mættust í Dominos deild karla. Tvíframlengja þurfti leikinn og urðu lokatölur 122:120 fyrir heimamenn. Með sigrinum tryggðu Borgnesingar sér dýrmæt stig í baráttunni gegn KFÍ um áframhaldndi veru í deildinni og hafa þeir nú 10 stig í 10. sæti deildarinnar. Valsmenn fengu hins vegar náðarhöggið í kvöld og eru þeir nú fallnir niður í 1. deild.
 
 
Leikurinn fór jafnt af stað. Bæði lið beittu sér lítið varnarlega sem gerði það að verkum að staðan var orðin 18:14 fyrir Skallagrím eftir um fimm mínútna leik. Skallar skelltu hins vegar í lás eftir reiðilestur Pálma Sævarssonar þjálfara í leikhléi á þessum tímapunkti og var staðan að loknum fyrsta leikhluta 29:18 fyrir heimamenn.
 
Borgnesingar hófu fyrstu mínútur annars leikhluta með því að auka við forskot sitt. Staðan var orðin 40:27 eftir fáeinar mínútur og útlit fyrir að heimamenn myndu síga allverulega fram úr. Þeir rauðklæddu voru þó ekki á sama máli og með góðum leik náðu þeir að minnka muninn í fjögur stig um miðjan leikhluta, 40:36. Skallagrímsmenn náðu þó vopnum sínum á nýjan leik áður en flautað var til hálfleiks. Hálfleikstölur 54:41 þeim í vil.
 
Sama þróun einkenndi í þriðja leikhluta. Valsmenn náðu þó aldrei að komast nær heimamönnum en sjö stig. Þegar leikhlutanum lauk voru Borgnesingar komnir með sextán stiga forskot 81:66.
 
Eflaust hafa Skallagrímsmenn ætlað sér að landa sigri í rólegheitum í lokaleikhlutanum því óvenju mikill slaki var á leik þeirra. Gestirnir gengu á lagið og minnkuðu muninn jafnt og þétt með skynsömum leik. Munurinn fór að endingu niður í fjögur stig þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir 90:86. Lokamínúturnar reyndust æsispennandi og söxuðu Valsarar muninn enn frekar. Það fór svo að Valsmenn áttu lokasóknina þegar tæpar átta sekúndur voru eftir þegar staðan var 96:93 fyrir Skallagrím. Ragnar Gylfason fékk það vandasama verk að jafna leikinn fyrir gestina og geigaði þriggja stiga skot hans. Birgir Pétursson var þó á réttum stað í teignum, náði frákastinu og kom boltanum aftur til Ragnars fyrir utan þriggja stiga línuna sem nú nýtti tækifærið og tryggði sínum mönnum framlengingu. Hálf sekúnda var þó eftir að leiknum og tóku Borgnesingar leikhlé. Þrátt fyrir skamman tíma náðu þeir að koma boltanum til Benjamin Smith sem klikkaði úr skotinu sínu.
 
Spennandi framlenging tók við. Valsmenn byrjuðu betur og voru komnir fimm stigum eftir góðar körfur frá Ragnari Gylfasyni og Chris Woods. Borgnesingar jöfnuðu hins vegar leikinn aftur með körfum frá Páli Axeli og Benjamin Smith 101:101. Liðin héldu áfram að skora og komust Borgnesingar að endingu yfir 108:106 með vítaskotum frá Benjamin Smith. Valsmenn áttu hins vegar lokaorðið í leikhlutanum og kom það nú í hlut baráttujaxlsins Birgis Péturssonar að jafna leikinn fyrir þá rauðklæddu. Birgir nýtti færið og jafnaði leikinn 108:108.
 
Sama spenna einkenndi síðari framlenginguna. Liðin skiptust á að hafa forystu og nú fór þreytan að segja til sín. Það voru þó Borgnesingar sem höfðu betur að endingu og munaði um góða vítanýtingu hjá Benjamin Smith á lokametrunum. Valsmenn höfðu tækifæri til að jafna metin þegar tæp ein sekúnda var eftir en skot Chris Woods geigaði. Lokatölur því 122:120 fyrir Borgnesinga.
 
Bestur á vellinum í kvöld í liði heimamanna var sem fyrr Benjamin Smith sem skoraði 46 stig og gaf 15 stoðsendingar. Næstur kom Páll Axel Vilbergsson með 30 stig og þá Egill Egilsson með 17 stig. Í liði Valsmanna voru Chris Woods og Birgir Pétursson allt í öllu. Chris Woods var illviðráðanlegur í teignum og skoraði hvorki meira né minna en 51 stig ásamt því að rífa niður 24 fráköst! Birgir Pétursson var ekki síðri – landaði 31 stigi og tók 14 fráköst. Frekari tölfræði má loks sá hér að neðanverðu.
 
 
Mynd/ Ómar Örn Ragnarsson
Umfjöllun/ Heiðar Lind Hansson