Lovísa Falsdóttir henti í sína spá um helgina og hér er hún. 
 
ÍR - Grindavík
 
Það er svolítið erfitt að segja til um þennan leik, veltur mikið á því hvernig ÍR-ingar nota momentið og spennuna sem fylgir svona stórum leik, því Grindvíkingar eru með aðeins fleiri lykilleikmenn sem hafa mikla reynslu af svona leikjum. En það sem er alveg klárt er að Nigel mun eiga góðan leik með hjálp úr öllum áttum frá Matta, Hjalta, Bjögga og Svenna (auðvitað með góðum ráðum frá reynsluboltanum Sævari Sævars), samt held ég að bakkararnir og svo Siggi Stóri inní teig, verði of stór biti fyrir ÍR-ingana. Ég ætla að tippa á að Grindvíkingar taka þetta á með 12 stigum.
 
 
Snæfell – Haukar
 
Þetta verður mjög jafn leikur, alveg frá upphafi til enda. Bæði lið með mjög sterka kana sem lyfta liðunum upp með sér. Ég hef trú á að Hildur Björg passi sinn teig vel og Snæfellsstelpur loki á aukatækifærin sem Haukarnir ná með sóknarfráköstum. Með könunum eiga Gunnhildur og Margrét Rósa eftir að eiga góðan leik sem og Hildur Sig og Hildur Björg Snæfellsmegin. Ég held að meistari Ingi Þór og dömurnar hans fagni naumum 5 stiga sigri að leik loknum.