Jóhannes er ekki frægur fyrir annað en að vera nákvæmur í verki og í spádómi sínum um bikarhelgina er hann nákvæmlega ekkert annað en það.  
 
Snæfell – Haukar
Snæfellskonur eru MEБETTA í ár. Þá á ég við að það er meistarabragur á liðinu. Þær eru með frábæran íslenskan leiðtoga, Hildi Sigurðar, sem hefur enn fulla stjórn á öllum flötum leiksins. Þær eru með erlendan leikmann sem heitir Unique og gefur þeim sannarlega einstakt framlag að því leyti að hún skyggir aldrei á að sólin fái skinið á aðra leikmenn liðsins þó svo hún gæti það alveg. Ofan á þetta teymi bætast Hildur Kjartans, Guðrún Gróa, Hugrún Eva og Eva Margrét sem eru bæði hávaxnar og með háa körfuboltagreindarvísitölu. Þetta væri í raun svokallaður „no-brainer“ ef ekki væri fyrir framlagsdrottninguna Lele Hardy sem er okkur Njarðvíkingum vel kunn. Stúlkan sú gæti leikið bakvörð í úrvalsdeild karla en hún skilar að meðaltali 27,5 stigum, 19,6 fráköstum og fiskar 7,8 villur á andstæðingana í hverjum leik. Þó hún fái stuðning frá Margréti Rósu, sem er skemmtilegur leikmaður, og Gunnhildi þá tel ég að Stykkishólmsliðið hafi dolluna með sér heim og það nokkuð örugglega 83-66.
 
ÍR – Grindavík
Þótt Íslandsmeistaratitillinn sé SÁ STÓRI þá er bikarúrslitaleikurinn alltaf mesta spennandi einstaki leikurinn sem leikmenn úrvalsdeildar geta spilað ár hvert. Hugur minn er hjá ÍR-ingum að þessu sinni þótt ég óski almennt Suðurnesjamönnum velgengni. Maður verður næstum því að grípa til biblíutilvitnana til að lýsa upprisu stoltra Breiðhyltinga á seinni hluta tímabilsins. Nigel Moore hefur verið hrósað mikið fyrir en það eru fleiri sem eiga hrós skilið í þeim herbúðunum. Byrjunarlið þeirra er allt að skila meira en 10 stigum á leik og meira en 10 framlagsstigum. Er eitthvað verður þeim að falli þá verður það lítið framlag af bekknum. Grindvíkingar eru með sterkari heildarhóp en ÍR og besta íslenska miðherjann í Sigga Þorsteins. Hann verður lykilmaður þeirra í leiknum enda varnarleikurinn í teignum helsta vandamál ÍR. Miklu skiptir hvernig bræðurnir Óli og Þorleifur mæta til leiks en þeir eru þekktir fyrir að kremja hugarsfarslega kókopuffskassa fyrir morgunmat. Ég ætla að leyfa mér að spá klassískri bikarrimmu með háu stigaskori 104-99 ÍR-ingum í hag.