Hrafn Kristjánsson fyrrum þjálfari KR setti saman spá sína og hér kemur hún. 
 Það er alltaf jafngaman á bikarhelgi og ekki laust við að maður öfundist aðeins út í liðin sem eru búin að upplifa bikarviku núna síðustu daga. Að því leyti eru þau öll sigurvegarar, þau búa að þessari reynslu til framtíðar, svo maður sletti duglega af tilfinningavellunni.
 
Ég sé Snæfells stelpurnar vinna kvennaleikinn nokkuð öruggt eftir spennandi leik til að byrja með. Það er búið að vera einstakt að fylgjast með þessu liði klára hvert erfitt verkefnið á fætur öðru í vetur af stakri ró undir styrkri stjórn Inga Þórs með Hildi Sig sér á hægri hönd. Þær virðast búa yfir liðsheild, reynslu og ákveðinni yfirvegun á ögurstundu sem kemur þeim vel á laugardaginn. Snæfell vinnur 79-72.
 
Í karlaleiknum fáum við ÍR liðið, sem er á góðri siglingu þessa dagana, á móti stríðsbörðum reynsluboltum Grindavíkur. Ég er nokkuð viss um að ÍR liðið sé tilbúið í verkefnið og hefji leikinn með miklum látum en eitthvað segir mér að á endanum seiglist Grindavíkurliðið alla leið að titlinum. Þar held ég að styrkur þeirra í teignum eigi eftir að vega þyngst þó Hjalti “Beast” Friðriksson eigi eftir að gera sitt besta til að drepa í þeim þar. Grindavík siglir fram úr í lok þriðja og tekur þetta á endanum 93-81.
 
Sjáumst í Höllinni!
 
Tengt efni: