Þórður Helgi Þórðarson eða Doddi á Sportrásinni eða Doddi litli sauð saman spá fyrir bikarhelgina. Doddi saknar auðvitað síns liðs í Höllinni þetta árið en sér fram á að þeir taki þá bara þann stóra er vora tekur. 
Það er gaman að sjá stelpurnar frá Stykkis í úrslitum í bikar og búnar að vinna deildina. Elska þegar þessi lið utan af landi stríða suðvestrinu. Ég veit ekki alveg hvernig þessi leikur á eftir að þróast, Haukastúlkur eru með flott lið sömuleiðis og eitt stk. Lele og Lele er lang-uppáhalds körfubolta konan mín svo ég fer aldrei að veðja á annað en Haukasigur. Lele skellir í 40-30-20-10 =stig, frkst, stoðir og stuldir. 84-82 Haukar
 
Eins og það var leiðinlegt að missa þennan góða dreng (Nigel) úr gryfjunni þá var ég mjög sáttur við hver tók við honum. Ljúfi Seljahellisdraugurinn Örvar fann þarna loka púslið í liðið sitt. Hjá ÍR-ingu er fullt af frábærum leikmönnum og 5 manna liðið fáránlega gott miðað við stöðuna á liðinu um áramótin. Það er gaman að fylgjast með liðinu smella í síðustu leikjum og ég ætla að gerast svo graður að spá þeim sigri þrátt fyrir að Íslandsmeistararnir séu fallegri á pappír. Gettóið sigrar kvótann í þetta sinn og Clausen kvikyndið setur einhver 30 stig og geyspar í lok leiks. ÍR. – Grindavík 91 – 90 eftir framlengingu.